Sérsveit er deild innan löggæslu- og öryggissviðs embættis ríkislögreglustjóra. Deildin sinnir fjölbreyttum verkefnum á sviði löggæslu- og öryggismála.
Sérsveit ríkislögreglustjóra er hreyfanlegt lögreglulið sem er sérþjálfað til þess að takast á við vopnuð lögreglustörf og öryggismál, þar með talin hryðjuverk og stórfelld ofbeldisbrot. Sveitin aðstoðar lögregluliðin hvarvetna á landinu, annast handtökur hættulegra brotamanna og hústökuaðgerðir vegna fíkniefnamála o.fl. Hún sinnir einnig köfunarverkefnum vegna rannsókna. Þá er sérsveitin liðsstyrkur fyrir almannavarnadeild þegar neyðarástand skapast.
Sérsveitin sinnir mikilvægu hlutverki varðandi hryðjuverkavarnir svo sem vegna árása, sprengjutilræða, gíslatöku, flugrána og sjórána. Sérsveitin ber þannig ábyrgð á aðgerðum vegna hryðjuverkaviðbúnaðar á sjó og landi og undir hana falla samningaviðræður við gíslatöku, viðbúnaður vegna sprengjutilfella og öryggisgæsla þegar á þarf að halda svo sem vegna erlendra heimsókna.
Hjá sérsveit starfa sprengjusérfræðingar og sprengjuleitarhundur.