ATHUGIÐ: BREXIT – Mikilvægar upplýsingar vegna ferðalaga breskra ríkisborgara frá 1. janúar 2021 má finna hér.

Mikilvægt! Vottorð um bólusetningu gegn COVID-19 eða vottorð vegna fyrri sýkingar af völdum COVID-19 geta ekki undanþegið einstaklinga frá gildandi ferðatakmörkunum. Vottorðin er aðeins hægt að nota í því skyni að undanþiggja einstaklinga sem er heimilt að ferðast til landsins frá kröfum um sóttkví og sýnatöku. Þeir ríkisborgarar þriðju ríkja sem hafa verið bólusettir gegn COVID-19 eða hafa staðfesta fyrri COVID-19 sýkingu geta því ekki ferðast til Íslands nema þeir geti sýnt fram á að vera undanþegnir gildandi ferðatakmörkunum.
___________________________________

Á þessari síðu má finna allar nauðsynlegar upplýsingar um þær ferðatakmarkanir sem í gildi eru fyrir ferðalög til Íslands vegna COVID-19.

 

Athugið að íslensk stjórnvöld veita ekki fyrirfram heimild fyrir komu til landsins og þurfa farþegar því að hafa öll nauðsynleg gögn meðferðis, sem staðfesta undanþágu frá ferðatakmörkunum, við komu til landsins. Þá eru ekki veittar frekari undanþágur en greint er frá hér að neðan og verður því öllum beiðnum um slíkt synjað.

Ákvörðun um hvort útlendingi er veitt innganga í landið er tekin af landamæravörðum við komu.

 

För yfir landamæri Íslands verða aðeins heimiluð á grundvelli þeirra reglna sem eru í gildi á hverjum tíma og er því mikilvægt að farþegar kynni sér vel gildandi reglur fyrir brottför þar sem reglur gætu hafa breyst. Jafnframt er mikilvægt að farþegar kynni sér reglur um komu til allra þeirra ríkja sem ferðast á til eða í gegnum (transit), þar sem ólíkar reglur geta gilt milli ríkja. Íslensk stjórnvöld geta ekki ábyrgst framkvæmd á öðrum landamærastöðvum en þeim sem eru hér á landi. Á vefsíðu utanríkisráðuneytisins er að finna yfirlit yfir ríki sem tilkynnt hafa um ferðatakmarkanir og ráðleggingar vegna ferðalaga. Ekki er um tæmandi lista að ræða.

Allar upplýsingar um hverjir mega ferðast til landsins og dæmi um hvaða gögnum þarf að framvísa í hverju tilviki má finna hér fyrir neðan.

Mikilvægt er að allir sem ferðast til Íslands kynni sér jafnframt gildandi sóttvarnarráðstafanir www.covid.is. Undanþága frá ferðatakmörkunum veitir ekki undanþágu frá sóttvarnarráðstöfunum.

 

Mikilvægt

Ef þú fellur ekki undir ofangreindar undanþágur á ferðatakmörkunum eða telur þig ekki geta sannreynt undanþágu með nauðsynlegum gögnum þá mælum við með að þú ferðist ekki til Íslands á meðan ferðatakmarkanir eru í gildi. Þeim útlendingum sem koma á ytri landamærin án þess að eiga erindi inn á Schengen-svæðið verður frávísað. Engar heimildir um inngöngu einstaklinga til Íslands eru veittar fyrir brottför. Allar ákvarðanir um inngöngu inn í landið eru teknar af landamæravörðum við komu til landsins.

 

Hvað eru ferðatakmarkanir?

Ferðatakmarkanir eru til komnar vegna heimsfaraldurs Covid-19 og er ætlað að koma í veg fyrir ónauðsynleg ferðalög á meðan ástandið er enn ófyrirsjáanlegt og minnka líkur á því að kórónuveiran berist með ferðamönnum til landsins.

Ferðamenn, sem margir hverjir geta venjulega ferðast óhindrað til Íslands, þurfa nú að geta sýnt fram á ástæðu fyrir því að ferðast til landsins og fært sönnur á þær ástæður við komu.

 

Um hvaða einstaklinga gilda ferðatakmarkanir?

Ferðatakmarkanir gilda um alla ríkisborgara þriðju landa*, óháð því hvort viðkomandi þurfi vegabréfsáritun eða geti ferðast án vegabréfsáritunar inn á Schengen-svæðið. Hins vegar eru í gildi tilteknar undanþágur frá ferðatakmörkunum sem fjallað er nánar um hér að neðan.

*Ríkisborgarar þriðju landa teljast hér þeir einstaklingar sem hvorki eru EES/EFTA-borgarar né ríkisborgarar Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins – óháð því hvort þeir teljist venjulega fullnægja skilyrðum fyrir komu.

 

Ferðatakmarkanir eiga ekki við um:

1.Íslenska ríkisborgara

2. EES/EFTA-borgara og ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkansins

3. Aðstandendur* íslenskra ríkisborgara, EES/EFTA-borgara og ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkansins

*Aðstandendur íslenskra ríkisborgara, EES/EFTA-borgara og ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkansins sem teljast undanþegnir ferðatakmörkunum eru:

  • Maki eða sambúðarmaki.
  • Barn, stjúpbarn, barnabarn eða stjúpbarnabarn viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka.
  • Foreldrar, stjúpforeldrar, afi, amma, stjúpafi og stjúpamma viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka.
  • Systkini eða stjúpsystkini viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka.

Aðrir fjölskyldumeðlimir en þeir sem skilgreindir eru hér að ofan falla ekki undir  undanþáguna.

Aðstandendum íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis er heimilt að ferðast með þeim til Íslands, þrátt fyrir að íslenski ríkisborgarinn sé ekki búsettur á Íslandi.

Aðstandendum EES/EFTA-borgara er ekki heimilt að koma til landsins á grundvelli undanþágunnar sé EES/EFTA-borgarinn ekki búsettur á Íslandi.

Aðrir aðstandendur eru aðeins undanþegnir ferðatakmörkunum ef þeir ferðast til Íslands í þeim tilgangi að heimsækja aðstandendur sem búsettir eru á Íslandi – eða í öðru Schengen-ríki ef um gegnumferð (transit) er að ræða og viðkomandi ríki heimilar umræddum aðstandendum að koma til landsins. Aðstandendum er jafnframt heimilt að ferðast með aðstandanda sínum, sem búsettur er á Íslandi, hingað til lands og ætlunin er að dvelja saman hér á landi.

Aðstandendum er heimilt að ferðast hingað til lands með ólögráða börn sín sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu til landsins. Skilyrði er að aðstandandi og barn ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

Ólögráða börnum sem uppfylla skilyrði fyrir komu er heimilt að ferðast til Íslands í fylgd foreldris/forráðamanns jafnvel þótt sá einstaklingur falli að öðru leyti ekki undir undanþágur frá ferðatakmörkunum. Skilyrði er að barn og foreldri/forráðamaður ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

 

4. Breskir ríkisborgarar (og fjölskyldumeðlimir þeirra) sem eiga hér dvalar- eða búseturétt fyrir 1. janúar 2021 í samræmi við samning EES/EFTA-ríkjanna og Bretlands um útgönguskilmála vegna BREXIT.

5. Erlenda ríkisborgara með gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt á Íslandi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu

6. Aðstandendur* dvalarleyfishafa á Íslandi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu

*Aðstandendur útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu sem teljast undanþegnir ferðatakmörkunum eru:

  • Maki eða sambúðarmaki.
  • Barn, stjúpbarn, barnabarn eða stjúpbarnabarn.
  • Foreldrar, stjúpforeldrar, afi, amma, stjúpafi eða stjúpamma.
  • Systkini eða stjúpsystkini.

Aðrir fjölskyldumeðlimir en þeir sem skilgreindir eru hér að ofan falla ekki undir undanþáguna.

Aðstandendur eru aðeins undanþegnir ferðatakmörkunum ef þeir ferðast til Íslands í þeim tilgangi að heimsækja fjölskyldumeðlimi sem búsettir eru hér á landi – eða í öðru Schengen-ríki ef um gegnumferð (transit) er að ræða og viðkomandi ríki heimilar umræddddum aðstandendum að koma til landsins. Aðstandendum er þó jafnframt heimilt að ferðast með fjölskyldumeðlimi sínum til Íslands, sé viðkomandi með gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, og ætlunin er að dvelja saman á Íslandi.

Aðstandendum er heimilt að ferðast hingað til lands með ólögráða börn sín sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu til landsins. Skilyrði er að aðstandandi og barn ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

Ólögráða börnum sem uppfylla skilyrði fyrir komu er heimilt að ferðast til Íslands í fylgd foreldris/forráðamanns jafnvel þótt sá einstaklingur falli að öðru leyti ekki undanþágur frá ferðatakmörkunum. Skilyrði er að barn og foreldri/forráðamaður ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

7. Erlenda ríkisborgara sem eru í nánu parasambandi, sem staðið hefur um lengri tíma*, með íslenskum ríkisborgara eða  einstaklingi sem er löglega búsettur hér á landi­

*Miðað er við að par hafi verið í sambandi í a.m.k. sex mánuði og hafi hist a.m.k. einu sinni áður í eigin persónu.

Einstaklingar sem ferðast til Íslands á grundvelli undanþágu um náið parasamband er heimilt að ferðast með ólögráða börn sín sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu.

 

8. Erlenda ríkisborgara sem hafa sannanlega búsetu í og eru að koma til landsins frá einu af eftirtöldum ríkjum*:

  • Ástralíu
  • Nýja-Sjálandi
  • Rúanda
  • Singapúr
  • Suður-Kóreu
  • Tælandi

*ATH! Listi yfir heimiluð ríki geta tekið breytingum með tiltölulega skömmum fyrirvara (síðast uppfært 16.02.2021).

 

9. Undanþágur vegna brýnna erindagjörða

Ferðatakmarkanir eiga ekki við um útlendinga sem ferðast til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ.á.m. eftirtaldir:

  • farþegar í tengiflugi,
  • starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu,
  • starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu,
  • einstaklingar sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd,
  • einstaklingar sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni,
  • einstaklingar og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðrir fulltrúar erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklingar í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, fulltrúar herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila.
  • námsmenn,
  • einstaklingar sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis.

Þeim einstaklingum sem falla undir framangreindar undanþágur frá ferðatakmörkunum er heimilt að ferðast með ólögráða börn sín, sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu, þyki það nauðsynlegt til að viðkomandi geti sinnt brýnum erindum hingað til lands.

 

Hvaða gögn þurfa einstaklingar að hafa meðferðis?

Allir sem ferðast til Íslands þurfa að hafa gild ferðaskilríki (vegabréf).

Áritunarskyldir einstaklingar þurfa eins og áður að fá útgefna vegabréfsáritun til að mega ferðast til Íslands. Reglur um vegabréfsáritanir geta því takmarkað rétt einstaklings til að koma til landsins jafnvel þótt viðkomandi sé undanþeginn ferðatakmörkunum.

Hér má sjá lista yfir áritunarskyld ríki: https://utl.is/index.php/aritunarskyldir

Athugið að enn er lokað fyrir útgáfu áritana hjá mörgum ríkjum sem fara með fyrirsvar fyrir Íslands hönd og því er mögulegt að áritunarskyldir einstaklingar sem eru undanþegnir ferðatakmörkunum geti ekki fengið útgefna áritun til Íslands eins og stendur.

Einstaklingar sem telja sig falla undir undanþágu frá ferðatakmörkunum verða að geta sannreynt það með viðeigandi gögnum við komu til landsins. Það sama á við um þá sem ætla sér að ferðast yfir ytri landamærin á leið til annarra ríkja innan Schengen-svæðisins.

Öll staðfest vottorð þurfa að hafa verið gefin út af viðeigandi opinberu stjórnvaldi. Þeim vottorðum sem eru á öðrum tungumálum en ensku eða norðurlandamáli þarf að fylgja löggild þýðing á ensku.

 

Önnur nauðsynleg gögn vegna ferðalaga til Íslands

Allir farþegar þurfa að hafa meðferðis gild ferðaskilríki (vegabréf), ásamt vegabréfsáritun (visa) ef við á.

Íslenskir ríkisborgarar, EES/EFTA-borgarar og ríkisborgarar Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkansins

  1. Engin frekari gögn.

Erlendir ríkisborgarar með gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt á Íslandi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu.

  1. Gilt dvalarleyfiskort EÐA staðfesting frá Útlendingastofnun á að dvalarleyfi eða langtímavegabréfsáritun hafi verið veitt.

Breskir ríkisborgarar (og fjölskyldumeðlimir þeirra) sem eiga hér dvalar- eða búseturétt fyrir 1. janúar 2021 í samræmi við samning EES/EFTA-ríkjanna og Bretlands um útgönguskilmála vegna BREXIT.

Breskir ríkisborgarar: Búsetutímavottorð (C-122) útgefið af Þjóðskrá sem staðfestir dvalarrétt hér á landi fyrir 1. janúar 2021.

Fjölskyldumeðlimir breskra ríkisborgara: Gilt dvalarleyfiskort gefið út fyrir 1. janúar 2021 eða staðfesting frá Útlendingastofnun á að dvalarleyfi hafi verið veitt fyrir 1. janúar 2021.

Makar eða sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara, EES/EFTA-borgara eða ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins.

Makar og sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara falla undir undanþáguna óháð búsetu íslenska ríkisborgarans.

Makar og sambúðarmakar EES/EFTA-borgara eða ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins falla aðeins undir undanþáguna sé makinn/sambúðarmakinn búsettur á Íslandi.

Aðstandendum er heimilt að ferðast hingað til lands með ólögráða börn sín sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu til landsins. Skilyrði er að aðstandandi og barn ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

  1. Staðfesting á ríkisfangi maka/sambúðarmaka (t.d. afrit af vegabréfi) sem ætlunin er að heimsækja á Íslandi. Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda til landsins.
  2. Staðfesting á löglegri búsetu aðstandenda hér á landi (t.d. búsetuvottorð frá Þjóðskrá Íslands). Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda sem er íslenskur ríkisborgari, óháð búsetu, til landsins.
  3. Staðfest hjónavígsluvottorð EÐA Staðfest sambúðarvottorð EÐA sýnt sé fram á sambúð með staðfestingu á sameiginlegu lögheimili aðila, t.d. með afriti af leigusamningi eða öðrum opinberum gögnum.
  4. Staðfesting á fjölskyldutengslum (t.d. fæðingarvottorð) ef ferðast er með barn sitt undir 18 ára aldri.
  5.  EÐA (ef í tengiflugi) Ef maki/sambúðarmaki ætlar að ferðast til annars Schengen-ríkis með gegnumferð um Ísland (transit) þá þarf viðkomandi að geta sýnt fram á ríkisfang maka/sambúðarmaka í viðkomandi ríki og að honum/henni sé heimilt að ferðast þangað sem aðstandandi enda geti hann/hún sýnt fram á fjölskyldutengsl.

 

Makar eða sambúðarmakar útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi á Íslandi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu.
Aðstandendum er heimilt að ferðast hingað til lands með ólögráða börn sín sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu til landsins. Skilyrði er að aðstandandi og barn ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

  1. Afrit af gildu dvalarleyfiskorti maka/sambúðarmaka sem ætlunin er að heimsækja á Íslandi. Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda til landsins.
  2. Staðfesting á löglegri búsetu aðstandenda hér á landi (t.d. búsetuvottorð frá Þjóðskrá Íslands).  Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda til landsins.
  3. Staðfest hjónavígsluvottorð EÐA Staðfest sambúðarvottorð EÐA sýnt sé fram á sambúð með staðfestingu á sameiginlegu lögheimili aðila, t.d. með afriti af leigusamningi eða öðrum opinberum gögnum.
  4. Staðfesting á fjölskyldutengslum (t.d. fæðingarvottorð) ef ferðast er með barn sitt undir 18 ára aldri).
  5.  EÐA (ef í tengiflugi) Ef maki/sambúðarmaki ætlar að ferðast til annars Schengen-ríkis með gegnumferð um Ísland (transit) þá þarf viðkomandi að geta sýnt fram á löglega búsetu maka/sambúðarmaka í viðkomandi ríki og að honum/henni sé heimilt að ferðast þangað sem aðstandandi enda geti hann/hún sýnt fram á fjölskyldutengsl.

 

  • Aðrir aðstandendur íslenskra ríkisborgara, EES/EFTA-borgara eða ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins:
    • Barn, stjúpbarn, barnabarn eða stjúpbarnabarn viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka.
    • Foreldrar, stjúpforeldrar, afi, amma, stjúpafi, stjúpamma.
    • Systkini eða stjúpsystkini viðkomandi, maka hans eða sambúðarmaka.

Aðrir fjölskyldumeðlimir en þeir sem skilgreindir eru hér að ofan falla ekki undir þessa undanþágu.

Aðstandendum íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis er heimilt að ferðast með þeim til Íslands, þrátt fyrir að íslenski ríkisborgarinn sé ekki búsettur á Íslandi.

Aðstandendum EES/EFTA-borgara er ekki heimilt að koma til landsins á grundvelli undanþágunnar sé EES/EFTA-borgarinn ekki búsettur á Íslandi.

Aðstandendum er heimilt að ferðast hingað til lands með ólögráða börn sín sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu til landsins. Skilyrði er að barn ferðist með forráðamanni og sýnt sé fram á fjölskyldutengsl við komu.

Ólögráða börnum sem uppfylla skilyrði fyrir komu er heimilt að ferðast til Íslands í fylgd foreldris/forráðamanns jafnvel þótt sá einstaklingur falli að öðru leyti ekki undir undanþágur frá ferðatakmörkunum. Skilyrði er að barn og foreldri/forráðamaður ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

  1. Staðfesting á ríkisfangi aðstandanda sem ætlunin er að heimsækja á Íslandi (t.d. afrit af vegabréfi). Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda til landsins.
  2. Staðfest gögn til sönnunar á fjölskyldutengslum við aðstandanda (t.d. fæðingarvottorð, giftingarvottorð, forsjárvottorð) – á einnig við ef ferðast er með barn sitt undir 18 ára aldri eða ef ferðast er með ólögráða barn sitt sem uppfyllir skilyrði fyrir komu.
  3. Staðfesting á löglegri búsetu aðstandenda hér á landi (t.d. búsetuvottorð frá Þjóðskrá Íslands). Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda sem er íslenskur ríkisborgari, óháð búsetu, til landsins.
  4. EÐA (ef í tengiflugi) Ef aðstandandi ætlar að ferðast til annars Schengen-ríkis með gegnumferð um Ísland (transit) þá þarf viðkomandi að geta sýnt fram á ríkisfang aðstandanda í viðkomandi ríki og að honum/henni sé heimilt að ferðast þangað sem aðstandandi enda geti hann sýnt fram á fjölskyldutengsl.

 

  • Aðrir aðstandendur útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, í öðru EES/EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu:
    • Barn, stjúpbarn, barnabarn eða stjúpbarnabarn.
    • Foreldrar, stjúpforeldrar, afi, amma, stjúpafi, stjúpamma.
    • Systkini eða stjúpsystkini.

Aðrir fjölskyldumeðlimir en þeir sem skilgreindir eru hér að ofan falla ekki undir þessa undanþágu.

Aðstandendum er heimilt að ferðast hingað til lands með ólögráða börn sín sem ekki hafa náð 18 ára aldri við komu til landsins. Skilyrði er að barn ferðist með forráðamanni og sýnt sé fram á fjölskyldutengsl við komu.

Ólögráða börnum sem uppfylla skilyrði fyrir komu er heimilt að ferðast til Íslands í fylgd foreldris/forráðamanns jafnvel þótt sá einstaklingur falli að öðru leyti ekki undir undanþágur frá ferðatakmörkunum. Skilyrði er að barn og foreldri/forráðamaður ferðist saman og geti sýnt fram á fjölskyldutengsl.

  1. Afrit af gildu dvalarleyfiskorti aðstandenda sem ætlunin er að heimsækja á Íslandi. Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda til landsins.
  2. Staðfest gögn til sönnunar á fjölskyldutengslum við aðstandanda (t.d. fæðingarvottorð, giftingarvottorð, forsjárvottorð) – á einnig við ef ferðast er með barn sitt undir 18 ára aldri eða ef ferðast er með ólögráða barn sitt sem uppfyllir skilyrði fyrir komu.
  3. Staðfesting á löglegri búsetu aðstandenda hér á landi (t.d. búsetuvottorð frá Þjóðskrá Íslands).  Ekki nauðsynlegt ef ferðast er með aðstandanda til landsins.
  4. EÐA (ef í tengiflugi) Ef aðstandandi ætlar að ferðast til annars Schengen-ríkis með gegnumferð um Ísland (transit) þá þarf viðkomandi að geta sýnt fram á löglega búsetu aðstandanda í viðkomandi ríki og að honum/henni sé heimilt að ferðast þangað sem aðstandandi enda geti hann sýnt fram á fjölskyldutengsl.

 

Aðilar í nánu parasambandi, sem staðið hefur um lengri tíma*, með íslenskum ríkisborgara eða einstaklingi sem er löglega búsettur hér á landi.
*Miðað er við að par hafi verið í sambandi í a.m.k. sex mánuði og hafi hist a.m.k. einu sinni áður í eigin persónu.

  1. Sameiginleg yfirlýsing pars um náið parasamband (sjá eyðublað B).
  2. Staðfesting á íslensku ríkisfangi kærasta/kærustu EÐA staðfesting á gildu dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétti kærustu/kærasta hér á landi. Ekki nauðsynlegt ferðist aðilar saman til landsins.
  3. Landamæravörðum er heimilt, ef ástæða er til, að óska eftir frekari staðfestingu á parasambandinu, t.d. með myndum, afritum af tölvupóstum, skilaboðum eða hvers konar öðrum samskiptum sem farið hafa fram milli aðila og/eða staðfestingu á að parið hafi hist a.m.k. einu sinni í eigin persónu (t.d. með stimplum í vegabréf eða ferðagögnum). Er því mælt með að einstaklingar hafi í för með sér önnur slík gögn til staðfestingar á sambandinu.
  4. Ef ferðast er með ólögráða barn sitt sem hefur ekki náð 18 ára aldri við komu þarf foreldri/forráðamaður að ferðast með barninu og geta sýnt fram á fjölskyldutengsl við komu (t.d. fæðingarvottorð).

 

Erlendir ríkisborgarar sem hafa sannanlega búsetu* í og eru að koma til landsins frá einu af eftirtöldum ríkjum:
Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Rúanda, Singapúr, Suður-Kóreu, Tælandi.

*Ekki er byggt á þjóðerni heldur aðeins sannanlegri búsetu í viðkomandi ríki.

  1. Yfirlýsing um undanþágu vegna búsetu í einu af þeim þriðju ríkjum sem eru undanþegin ferðatakmörkunum (sjá eyðublað C).
  2. Gögn sem staðfesta búsetu í einu af þeim ríkjum sem eru á lista yfir undanþegin þriðju ríki (t.d. gilt dvalar- eða búsetuleyfi, gilt atvinnuleyfi, útgefið ökuskírteini eða önnur opinber gögn sem staðfesta búsetu í ríkinu).
  3. Gögn sem staðfesta ferðaleið frá búseturíki til Íslands (aðeins heimilt að viðhafa stuttar gegnumferðir (transit)).

 

Undanþágur vegna brýnna erindagjörða:

Þeir sem falla undir neðangreindar undanþágur er heimilt að ferðast með ólögráða börn sín hingað til lands sé það nauðsynlegt í því skyni að geta sinnt brýnum erindum sínum. Gerð er sú krafa að foreldri/forráðamaður ferðist með barninu og að hægt sé að sýna fram á fjölskyldutengsl við komu (t.d. fæðingarvottorð).

 Farþegar í tengiflugi (transit)

  1. Yfirlýsing um undanþágu vegna gegnumferðar (sjá eyðublað C).
  2. Flugupplýsingar sem staðfesta gegnumferð.
  3. Ef ferðast á yfir ytri landamæri Íslands til annars Schengen-ríkis þarf farþegi að sýna fram á að mega ferðast til viðkomandi ríkis.

Starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu

  1. Yfirlýsing um störf viðkomandi hér á landi (sjá eyðublað C).
  2. Staðfesting vinnuveitanda á brýnni nauðsyn starfa viðkomandi hér á landi.

Starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu

  1. Yfirlýsing um störf viðkomandi hér á landi (sjá eyðublað C)
  2. Staðfesting vinnuveitanda á vinnuferð með upplýsingum um komu- og brottfarardagsetningar.

 

Einstaklingar sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni (t.d. vegna veikinda, slysa eða andláts).
Undir þetta falla: maki, sambúðarmaki, börn, stjúpbörn, foreldrar, stjúpforeldrar, barnabörn, stjúpbarnabörn, systkini, stjúpsystkini, afi, amma, stjúpafi, stjúpamma, tengdaforeldrar og tengdabörn.

  1. Yfirlýsing vegna brýnna aðstæðna (sjá eyðublað C).
  2. Staðfesting á brýnum aðstæðum, t.d. frá lækni, spítala eða útfararstofu.
  3. Staðfesting á fjölskyldutengslum (t.d. fæðingarvottorð, giftingarvottorð).

 

Einstaklingar og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðrir fulltrúar erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklingar í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, fulltrúar herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila.

  1. Yfirlýsing um undanþágu frá ferðatakmörkunum vegna starfa hér á landi (sjá eyðublað C).
  2. Staðfesting frá stofnun/vinnuveitanda um brýna nauðsyn starfa hér á landi EÐA Diplómatavegabréf, ef ferðast er í opinberum erindagjörðum.
  3. Ef við á: Gögn sem staðfesta fjölskyldutengsl (t.d. fæðingarvottorð eða giftingarvottorð).

 

Námsmenn
Á við um hvers konar nám eða menntun (einnig nema- eða lærlingsstöður, námsmenn í gagnfræða- og framhaldsskólum, nemendur í tungumálanámi, heimavistarskólum, verknámi, skiptinema, listamannadvöl og nemendur sem koma í rannsókna- eða vísindatilgangi).
≠ Bekkjarferðalög eru ekki undanþegin ferðatakmörkunum.

  1. Yfirlýsing um undanþágu frá ferðatakmörkunum (sjá eyðublað C)
  2. Staðfesting frá viðkomandi skóla um skráningu nemanda í nám eða námskeið hér á landi. EÐA Yfirlýsing viðkomandi skóla um mikilvægi námsferðar hingað til lands, t.d. í rannsókna- eða vísindatilgangi.

 

Einstaklingar sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis.
Á einnig t.d. við um fréttamenn, rannsókna- og vísindamenn, atvinnuíþróttafólk og þeirra starfsfólk vegna keppnisferða, viðskiptaferðir og fundi.

Mikilvægt er að útlendingum sem ekki hafa fengið útgefið tímabundið atvinnuleyfi hér á landi er aðeins heimilt að starfa hér ef: i) starf viðkomandi fellur undir undanþágu vegna skammtímavinnu, eða ii) starf viðkomandi telst ekki vera innan innlends vinnumarkaðar, t.d. leikmenn erlendra íþróttafélaga og starfsfólk því tengt.

Skilyrði er að koma útlendinga vegna starfa sem falla undir i)-lið um undanþágureglur vegna skammtímavinnu sé tilkynnt til Vinnumálastofnunar. Er viðkomandi heimilt að starfa hér á landi í allt að 90 daga á ári á grundvelli slíkrar tilkynningar. Gerð er krafa um að viðeigandi tilkynning berist stofnuninni áður en viðkomandi hefur störf. Sjá nánar:
https://vinnumalastofnun.is/atvinnurekandi/atvinnuleyfi-utlendinga/undanthagur-fra-atvinnuleyfi-vegna-skammtimavinnu

  1. Yfirlýsing vinnuveitanda um viðskipti eða starf ríkisborgara þriðja lands sem fram fer hér á landi og er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis (sjá eyðublað A).
  2. Gögn er staðfesta nánar ástæðu ferðar, t.d. fundar- eða ráðstefnudagskrá, staðfesting á íþróttaviðburði, rannsóknarvinnu eða upplýsingar um mikilvægi fréttaöflunar.
  3. Ef við á: Rafræn tilkynning til Vinnumálastofnunar um komu útlendings til að starfa á Íslandi til skemmri tíma en 90 daga. Vinnumálastofnun gefur út sérstaka staðfestingu á að skráning hafi verið móttekin og hún uppfylli skilyrði, sé þess óskað. Fyrirspurnir berist á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is

 

Eyðublað A
Yfirlýsing vinnuveitanda um viðskipti eða starf hér á landi sem ekki er hægt að framkvæma síðar eða erlendis.

Eyðublað B
Sameiginleg yfirlýsing pars um náið parasamband.

Eyðublað C
Yfirlýsing um undanþágu frá ferðatakmörkunum.

Eyðublað D
Yfirlitsblað vegna heimsókna náinna fjölskyldumeðlima.