3 Apríl 2020 16:14

Yfirlýsing frá Almannavarnanefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra

Almannavarnanefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra mælist eindregið til þess að fólk ferðist ekki um páskana og virði í hvívetna samkomubann og fjarlægðarmörk hér eftir sem hingað til. Ljóst er að heilbrigðiskerfi landsmanna má ekki við meira álagi og koma þarf í veg fyrir aukna hættu á smitum og  slysum með öllum tiltækum ráðum á þessum krefjandi tímum.

Almannavarnanefnd biðlar til almennings að sýna samfélagslega ábyrgð. Þeir sem hyggja á holla og góða útivist verða að sýna aðgætni, virða öll tilmæli um fjarlægðarmörk og hafa í heiðri samkomubannið sem gildir til 4. maí.

Eigendur orlofshúsa, og/eða félög sem hafa með orlofsbyggðir að gera, eru hvattir til að leigja ekki út orlofshús um páskana.

Enn fremur er fólk hvatt til að takmarka gestakomur eins og hægt er.

Virðum tilmæli Sóttvarnalæknis og Landlæknis um að ferðast innanhúss um páskana. Heilbrigðisstarfsfólk þarf á öllum kröftum sínum að halda við að hlúa að fólki sem smitast hefur af Covid-19. Óþarfa ferðalög bjóða heim hættu á slysum og frekari smitum sem við megum ekki við nú um stundir.

Munum að við erum öll almannavarnir. Ábyrgðin hvílir hjá okkur.

Almannavarnarnefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 03.04.2020

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra

Bæjarstjórar, sveitarstjórar og oddvitar eftirfarandi sveitarfélaga

Akureyrarbær

Dalvíkurbyggð

Eyjafjarðarsveit

Fjallabyggð

Grýtubakkahreppur

Hörgársveit

Langanesbyggð

Norðurþing

Skútustaðahreppur

Svalbarðshreppur

Svalbarðsstrandarhreppur

Tjörneshreppur

Þingeyjarsveit