21 Desember 2020 10:34
S.l. föstudag um kl. 15:00 var tilkynnt um mikil skriðuföll á Seyðisfirði. Fyrstu fréttir voru þess eðlis að þegar var brugðið á það ráð að senda lögreglumenn frá Höfn áleiðis á vettvang og lögreglumenn frá Hvolsvelli á Höfn til að sinna löggæslu þar. Annar bíll fór frá Selfossi með mannskap til aðstoðar en var snúið frá þegar atvik tóku að skýrast. Hafnarmenn voru svo við vinnu eystra fram á nótt en héldu heimleiðis að því loknu. Hugur okkar er hjá Seyðfirðingum og óskum við þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru.
Tveir ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis. Annar þeirra var stöðvaður á leið sinni frá Reykjavík austur um Sandskeið og Hellisheiði að kvöldi 19.12. en hann sinnti í engu stöðvunarmerkjum lögreglu á leið sinni. Gripið var til þess ráðs að setja út naglamottu á þjóðveginn við Kotströnd en hann kom sér framhjá henni og hélt för sinni áfram. Veruleg hætta var af aksturslagi mannsins sem ýmist ók á miklum hraða eða litlum og rásaði mjög og var því gripið til þess ráðs að nota lögreglubifreið til að „keyra hann út“ Það var gert þar sem hraði hans var orðinn lítill og var maðurinn handtekinn í kjölfarið af stöðvuninni. Litlar sem engar skemmdir urðu á lögreglubíl og minniháttar á bíl ökumannsins. Hann gisti fangageymslur á Selfossi um nóttina og var yfirheyrður daginn eftir. Kannaðist við brot sín en gat litlar skýringar gefið á athæfinu.
Hinn ökumaðurinn var stöðvaður á Þorlákshafnarvegi að kvöldi 18. desember. Sá er, auk ölvunar, grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Hann færður á stöð til blóðsýnatöku en frjáls ferða sinna að því loknu.
Þann 15. desember voru höfð afskipti af ökumanni sendibifreiðar sem dró kerru með grindi til flutnings á rúðugleri. Rekkinn var laus á kerrunni og sá ábyrgur vegfarandi þegar hún rakst utan í kyrrstæða bifreið á bifreiðastæði við Austurveg. Ökumaður sendibílsins stöðvaði ekki för sína við það en lögreglumenn sem brugðust við tilkynningunni fundu viðkomandi þar sem hann var á leið sinni vestur Suðurlandsveg og hafði stöðvað aksturinn til að festa grindina. Hann kannaðist við málið og lýkur því með venjubundnum hætti.
Ökumaður á sjötugsaldri var kærður fyrir að aka bifreið sinni um Suðurlandsveg á Hellisheiði með 176 km/klst hraða þar sem leyfður ökuhraði er 90 km/klst. Við brotinu liggur 250 þúsund króna sekt og þriggja mánaða svipting ökuréttar. 18 aðrir voru kærðir í vikunni fyrir að aka of hratt. 10 þeirra á svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur.
Lögreglumenn hafa farið í eftirlit á hina ýmsu staði til að fylgjast með því að sóttvarnarreglum sé fylgt. Enda þótt flestir séu orðnir frekar leiðir á ástandinu er það tilfinning lögreglu mikill vilji meirihluta almennings standi til að standa sig í þessu mikilvæga verkefni og verður að hrósa fólki fyrir að gera vel í því. Það er farið að glitta í ljósskímu framundan og nú leggumst við á árar til að tryggja að hlutirnir fari ekki úr böndunum á ný.
Kl. 10:02 í dag voru vetrarsólstöður og þar með fer að halla að vori. Þessi tími er sá dimmasti yfir veturinn og því full ástæða til að nota endurskinsmerki og huga að ljósabúnaði bifreiða. Akstur hundruða ökutækja var í liðinni viku stöðvaður til að kanna með ljósabúnað og fleira. Niðurstaðan úr því var nokkuð góð en alltaf einhver tilefni til athugasemda.