21 Nóvember 2005 12:00
Ríkislögreglustjóri hefur beint þeim tilmælum til allra lögreglustjóra að þeir fari yfir skráningu skotvopna hver í sínu umdæmi og geri viðeigandi ráðstafanir vegna fjölda skotvopna sem skráð eru á nöfn leyfishafa, sem létust fyrir meira en ári síðan.
Á árinu 1999, í kjölfar gildistöku vopnalaga, nr. 16/1998, var samræmd skotvopnaskrá tekin í notkun fyrir allt landið. Innleiðing hennar tók nokkurn tíma og enn eru starfsmenn lögregluembættanna, sem vinna við útgáfu skotvopnaleyfa, að leiðrétta ýmsar skráningar á skotvopnum. Við athugun sem gerð var 10. nóvember sl. kom í ljós að á skotvopnaskrá voru 1.055 skotvopn skráð á 614 leyfishafa, sem allir eru látnir fyrir meira en ári síðan.
Í 16. gr. vopnalaganna segir:
Skotvopni, sem er hluti dánarbús, skal innan tólf mánaða frá andláti leyfishafa ráðstafað til aðila sem hefur leyfi til að eiga slíkt skotvopn. Þegar um er að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- eða tilfinningagildi er heimilt að víkja frá þessu skilyrði, enda verði skotvopnið gert óvirkt.
Í 5. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl., nr. 787/1998, segir:
Nú andast maður er hefur leyfi fyrir skotvopni og skal því þá innan 12 mánaða ráðstafað til aðila sem hefur leyfi til að eiga sambærilegt skotvopn. Hafi svo ekki verið gert skal skotvopnið afhent lögreglu til geymslu þar til endanleg ráðstöfun þess verður ákveðin.
Maki, sem hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi, þarf leyfi lögreglustjóra fyrir skotvopni eða skotvopnum, sem hinn látni maki hafði leyfi fyrir.
Sé um að ræða skotvopn sem hefur ótvírætt minja- og tilfinningagildi fyrir erfingja hins látna er lögreglustjóra heimilt að víkja frá skilyrðum 2. gr. reglugerðarinnar, enda verði skotvopnið gert óvirkt.
Ríkislögreglustjóri vill af þessu tilefni vekja athygli almennings, en sérstaklega erfingja og annarra sem annast skipti á dánarbúum, að leita leiðbeininga hjá lögreglunni um skráningu og ráðstöfun skotvopna sem voru í eigu þess sem látinn er. Í 16. gr. vopnalaga, sem birt er hér að framan, segir meðal annars að dánarbú skuli ráðstafa skotvopni innan 12 mánaða frá því að leyfishafi andaðist.