27 Maí 2009 12:00
Farið hefur verið yfir viðbrögð fjarskipamiðstöðvar ríkislögreglustjóra vegna útkalls að Barðaströnd á Seltjarnarnesi kl. 20:35:25 mánudaginn 25. maí 2009. Fyrstu lögreglumenn komu á staðinn kl. 21:02:00, eða 27 mínútum eftir að útkall barst. Voru þeir á bifhjólum.
Á sama tíma og útkallið kom voru þrjú útköll önnur hjá lögreglunni, sem öll voru forgangsverkefni.
Rétt er að geta þess að fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra gerði strax nauðsynlegar ráðstafanir til að senda í útkallið og kallaði jafnframt þrisvar út til allra lögreglumanna á opnum talhópi. Þegar útkallið kom frá Barðaströnd lá fyrir að hinir grunuðu brotamenn voru farnir og talið að ættingjar væru á leið eða þegar komnir þangað.
Eftir að hafa skoðað skrár fjarskiptamiðstöðvar með tímasetningum og upplýsingum um samskipti hennar við lögreglumenn verður ekki annað séð en að viðbrögð fjarskiptamiðstöðvarinnar hafi verið eðlileg.
Um varðskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, svo sem um fjölda lögreglumanna og ökutækja á vakt, er vísað til þess embættis.