11 Febrúar 2008 12:00
112-dagurinn er í dag, 11. febrúar, en tilgangur hans er að minna á neyðarnúmerið og það víðtæka net björgunaraðila sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það. Auk þess er unnt að hafa samband við barnaverndaryfirvöld um allt land í gegnum neyðarnúmerið, 112. Neyðarlínunni bárust um 266 þúsund neyðarsímtöl á síðasta ári og var í langflestum tilvikum beðið um aðstoð lögreglu og slökkviliða.
Efnt verður til móttöku í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð síðdegis í dag þar sem verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2007 verða afhent og skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra flytur ávarp og Lögreglukórinn tekur nokkur lög fyrir gesti.
Ljósmyndasýningin Útkall 2007 stendur í Kringlunni til 18. febrúar. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, opnaði hana með formlegum hætti síðastliðinn föstudag en á sýningunni er að finna úrval ljósmynda af viðbragðsaðilum að störfum á síðasta ári. Sýningin vekur mikla athygli gesta Kringlunnar að venju en hún hefur verið haldin í tengslum við 112-daginn frá upphafi. Ljósmyndarar á Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Víkurfréttum og fleiri eiga myndir á sýningunni.
112-dagurinn er nú haldinn hér á landi í fjórða sinn. Að honum standa Neyðarlínan og þeir fjölmörgu sem starfa við heilbrigðisþjónustu, barnavernd, löggæslu, björgun og almannavarnir í lofti, á landi og sjó; lögreglan, slökkviliðin, Brunamálastofnun, Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Flugstoðir, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, landlæknisembættið og Barnaverndarstofa.