17 Desember 2020 14:47

Í dag tók formlega gildi viðbragðsáætlun vegna yfirálags á landamærum sem gefin er út af ríkislögreglustjóra. Viðbragðsáætluninni er ætlað að vera til leiðbeininga og stuðnings ef upp koma aðstæður þar sem skyndileg aukning verður á komu einstaklinga hingað til lands sem óska eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi. Með áætluninni er tryggð geta og boðleiðir stjórnvalda til þess að sinna grunnþörfum, þjónustu og málsmeðferð einstaklinga sem koma hingað í leit að alþjóðlegri vernd við þær aðstæður sem verða við komu mikils fjölda einstaklinga á skömmum tíma.

 

Viðbragðsáætlunin byggir að meginstefnu til á fyrirmynd annarra almannavarnaráætlana sem hafa þarf til taks komi upp aðstæður er kalla á virkjun hennar.  Unnið hefur verið að viðbragðsáætluninni allt frá árinu 2017 en árið á undan komu hingað til lands rúmlega 1.100 einstaklingar í leit að alþjóðlegri vernd, sem var mikil aukning frá árunum á undan.

Markmið viðbragðsáætlunarinnar er m.a. að tryggja skipulögð og samræmd viðbrögð lögreglu, Útlendingastofnunar og annarra viðbragðsaðila sem skilgreindir eru í áætluninni. Að gerð hennar hafa komið almannavarnadeild og landamæradeild ríkislögreglustjóra, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Útlendingastofnun, auk annarra hagsmunaaðila.

 

„Viðbragðsáætlun sem þessari er ætlað að auðvelda aðilum sem að henni koma að takast á við svipaðar aðstæður og árið 2016 þegar mikill fjöldi einstaklinga kom til landsins og óskaði eftir alþjóðlegri vernd. Með virkjun hennar hefðu aðilar verið betur undirbúnir í að sinna lögbundnu skyldum og átt betur með að sinna þörfum þeirra fjölmörgu einstaklinga sem þurftu ýmiss konar stuðning og aðstoð,“ segir Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn og sviðsstjóri á landamærasviði ríkislögreglustjóra.