12 Mars 2008 12:00
Nú um helgina lauk þriggja helga námskeið fyrir vettvangsstjóra, sem lögreglustjórinn á Hvolsvelli bauð upp á í samstarfi við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Brunamálaskólann. Rúmlega 20 manns luku námskeiðinu.
Þátttakendur voru fulltrúar viðbragðsaðila í héraðinu, frá lögreglu, björgunarsveitum, slökkviliðum, byggingarfulltrúar Rangárvallasýslu og sveitarstjórinn í Rangárþingi ytra.
Námskeiðið var haldið í Aðgerðastjórnstöð almannavarna í umdæminu, sem er í húsi Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Nemendur glímdu við hin ýmsu verkefni á námskeiðinu sem tengjast störfum þeirra. Tilgangur námskeiðsins er að mennta fólk frá öllum viðbragðsaðilum innan héraðsins í að vinna eftir sama skipulagi þegar tekist er á við verkefni sem þessi aðilar eiga við í sameiningu og jafnframt að treysta bönd milli allra viðbragðsaðila.
Öflugt og gott samstarf er á milli allra viðbragðsaðila í héraðinu, sem nær frá Þjórsá í vestri að Gígjukvísl í austri, en margar þekktar náttúruvár eru innan héraðsins, s.s. eldgos og jarðskjálftar.
Meðfylgjandi er hópmynd af þáttakendum auk námskeiðsstjóra Rögnvaldi Ólafssyni, lögreglufulltrúa frá Almannavarnadeild RLS.