12 Ágúst 2017 11:23
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var opnuð fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum í Hveragerði í fyrrakvöld vegna Nóróveirusýkingar sem kom upp á Úlfljótsvatni. 181 einstaklingur var fluttur í fjöldahjálparstöðina. Var um að ræða skátahópa frá Bretlandseyjum og Bandaríkjunum auk starfsfólks á Úlfljótsvatni.
Stöðufundur fulltrúa viðbragðsaðila var haldinn kl. 10:00 í morgun í Hveragerði.
Fram kom að dregið hefur verulega úr tíðni nýrra sýkinga og einungis 3 skjólstæðingar hafa veikst síðan í gærkvöldi. Flestir eru á góðum batavegi og einungis 8 einstaklingar hafa verið með meltingareinkenni síðustu 8 klst. og þar af eru 4 einstaklingar sem eru enn með einkenni af þeim 71 alls sem hafa veikst. Enn eru 66 einstaklingar í fjöldahjálparstöðinni og verið er að vinna að því að finna þeim góða aðstöðu til að dvelja í næstu daga. Nokkrir eru þegar farnir til síns heima erlendis samkvæmt sinni ferðaáætlun, en síðustu hóparnir eiga samkvæmt plani að halda af landi brott á miðvikudag.
Fjöldahjálparmiðstöð verður áfram opin eins lengi og þurfa þykir og er fyrirhugað að sú starfsemi verði í hluta húsnæðis Grunnskólans í Hveragerði fram á mánudag ef þarf. Þegar er byrjað að sótthreinsa hluta skólans með það í huga að starfsemi geti hafist þar á þriðjudag.
Fyrirhugaður er stuttur stöðufundur viðbragðsaðila kl. 17 í dag.