1 Júní 2018 13:39
Tvö slys hafa verið í fréttum hjá okkur frá því í gær. Annarsvegar er slys á bandaríkskri konu sem féll afturfyrir sig á klöpp við Gullfoss, lenti á hnakkanum og reyndust áverkar hennar alvarlegir. Hún var flutt með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík þar sem hún gekkst undir aðgerð en frekari upplýsingar um líðan hennar liggja ekki fyrir. Tilkynningin um slysið barst neyðarlínu kl. 14:08 Sjúkrabíll var sendur á vettvang á forgangi F2 kl. 14:12 og var kominn þangað 14:57
Hitt slysið varð á sveitabæ í Ásahreppi um kl. 22:46 í gærkvöldi en þá losnaði skófla af gálga ámoksturstækja dráttarvélar sem notuð var við niðurrekstur á girðingarstaur. Skóflan lenti á 12 ára dreng sem var þar við og var hann fluttur með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík. Meiðsl hans eru hinsvegar mun minni en óttast var og mun hann væntanlega útskrifast fljótlega af sjúkrahúsi.