23 Nóvember 2012 12:00
Tilkynningar um grunsamlegar símhringingar hafa borist til lögreglunnar á Suðurnesjum á tveimur undanförnum dögum. Þeir, sem hringt hefur verið í, lýsa því með sama hætti. Útlendingur hefur hringt og tjáð viðkomandi að heimilistölva hans eða hennar sé biluð, sem enginn fótur hefur reynst fyrir. Boðin er upp á tölvuþjónustu og í einu tilvika var reynt að veiða persónuupplýsingar upp úr þeim sem hringt var í. Hins vegar vildi hringjandi ekki gefa upp hver hann væri.
Lögreglan telur rétt að vara fólk eindregið við símhringingum af þessu tagi, enda leikur grunur á að eitthvað annað og verra búi þar að baki.
Neyðarlending í nótt vegna veikinda
Lögreglunni a Suðurnesjum barst í nótt tilkynning þess efnis að fyrirhuguð væri neyðarlending flugvélar vegna veikinda farþega. Vélinn var í áætlunarflugi frá New York til Osló þegar farþegi, tæplega fimmtugur karlmaður, fékk slæman brjóstverk. Sjúkraflutningamenn og læknir komu á vettvang og var maðurinn fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans við Hringbraut. Að því búnu hélt vélin leiðar sinnar.
Affelgaði bíl í dópakstri
Lögreglan á Suðurnesjum handtók tvo ökumenn um tvítugt vegna gruns að þeir ækju undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumannanna, kona sem handtekin var í gær, reyndist vera með tóbaksblandað kannabis í bílnum. Við húsleit heima hjá henni fannst meira af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Hinn ökumaðurinn, karlmaður um tvítugt, hamaðist á bifreið sinni á plani við Fjölbrautarskólann í Keflavík og ók ítrekað upp á kanta á planinu þar til að hann affelgaði með því annað framdekk bifreiðarinnar. Hann hélt þó áfram að þenja bílinn um stund og láta hann skransa á planinu. Maðurinn var kominn út úr bílnum, þegar lögreglan handtók hann og kvaðst ekki hafa ekið. Síðar sá hann svo að sér og viðurkenndi brot sitt