8 Júní 2015 14:08
Unglingsstúlka fárveiktist um helgina eftir að hafa drukkið heimabruggað áfengi. Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um atvikið seint á laugardagskvöld. Stúlkan og piltur sem með henni var höfðu keypt landann fyrir utan skemmtistað í umdæminu. Skömmu eftir að stúlkan hafði innbyrt eitthvað af brugginu varð hún fárveik, kastaði upp og meðvitund hennar skertist. Henni hrakaði svo og var hún flutt með sjúkrabifreið í lögreglufylgd á Landspítalann í Reykjavík. Ástand hennar var orðið stöðugt eftir skamma dvöl á spítalanum.
Lögregla hafði samband við forráðamenn stúlkunnar og piltsins og einnig var málið tilkynnt til barnaverndarnefndar. Málið er í rannsókn.
Lögregla varar sem fyrr við kaupum á heimabrugguðu áfengi. Neysla þess getur haft alvarlegar afleiðingar eins og dæmi hafa sannað.