2 Maí 2013 12:00
Ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, og Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, hafa undirritað samning milli ríkislögreglustjóra og Öryggismiðstöðvarinnar sem samstarfsaðila ANY Security Printing Company í Ungverjalandi, um framleiðslu og dreifingu ökuskírteina fyrir Ísland.
Á myndinni eru talið frá vinstri, Jónas Ingi Pétursson, Haraldur Johannessen, Árni E. Albertsson, Ragnar Þór Jónsson og Reynir S. Ólafsson
Útlit ökuskírteina mun breytast talsvert frá því sem notað hefur verið síðan 2001, vegna krafna í tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini. Reglugerð um ökuskírteini hér á landi byggir á tilskipuninni og þurfti því að gera talsverðar breytingar á útlitinu og eins hafa kröfur um öryggisatriði aukist stórlega frá því sem var.
Hönnun, framleiðsla, persónugerð og dreifing ökuskírteina fyrir Ísland var boðin út á evrópska efnahagssvæðinu á s.l. sumri og reyndist tilboð Öryggismiðstöðvarinnar í samstarfi við ANY Security Printing Company lægst. Tilboði þeirra var tekið undir lok ársins 2012 og undirbúningsvinnu vegna persónugerðar ökuskírteinanna er nú á lokastigi. Gert er ráð fyrir að innan tveggja vikna verði allar pantanir íslenskra skírteina sendar til úrvinnslu hjá ANY Printing Company og að fyrstu ökuskírteinin þaðan verði afhent sjö dögum síðar til afgreiðslustaða. Vonir standa til að afgreiðslutími ökuskírteina styttist með þessu fyrirkomulagi þar sem fullgerð ökuskírteini verða send beint til afgreiðslustaðanna frá framleiðandanum.