1 Desember 2020 15:23
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. nóvember, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 23. nóvember kl. 14.58 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi, á móts við Silfurtún. Aftasta bílnum var ekið suður Hafnarfjarðarveg og aftan á aðra, sem við það kastaðist áfram á þá þriðju. Bæði miðjubíllinn og sá fremsti voru kyrrstæðir vegna umferðar fram undan. Í aðdragandanum kvaðst ökumaður öftustu bifreiðarinnar hafa blindast af sólinni. Farþegi úr einum bílanna fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 25. nóvember. Kl. 20.40 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Bústaðavegar, Grensásvegar og Eyrarlands. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Bústaðaveg, en hinni vestur Bústaðaveg og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka suður Eyrarland. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.24 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Breiðhellu og Dranghellu. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Breiðhellu, en hinni norður Dranghellu, þar sem er biðskylda, og inn á gatnamótin. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 27. nóvember kl. 22.57 missti ökumaður, á leið austur Hólmsheiðarveg, stjórn á bifreið sinni í beygju, sem hafnaði utan vegar og valt. Þjappaður snjór og hálka var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 28. nóvember kl. 1.32 var bifreið ekið suðvestur Vesturlandsveg og í hringtorg við Korpúlfsstaðaveg, en á leið út úr hringtorginu missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni, sem hafnaði á ljósastaur. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.