27 Október 2020 14:09
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. október, en alls var tilkynnt um 23 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þriðjudaginn 20. október kl. 17.27 ók vörubifreið af vegöxl, norðan mislægra gatnamóta Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar, og í hlið bifreiðar sem var ekið Reykjanesbraut til suðvesturs. Farþegi úr bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. október. Kl. 9.42 varð tveggja bíla árekstur á mótum Reykjanesbrautar og Kauptúns. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni var ekið Reykjanesbraut til suðvesturs, en hinni aðrein frá Kauptúni og inn á Reykjanesbraut. Síðarnefnda bifreiðin valt við áreksturinn, en ökumaður hennar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.24 varð fjögurra bíla aftanákeyrsla rétt vestan gatnamóta Reykjanesbrautar og Álftanesvegar. Í aðdragandanum var öftustu bifreiðinni var ekið vestur Reykjanesbraut, en hinar þrjár voru allar kyrrstæðar vegna umferðar fram undan. Við áreksturinn kastaðist næstaftasta bifreiðin áfram á þá næstfremstu, sem við það kastaðist áfram á fremstu bifreiðina. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.42 var ekið á hjólreiðamann á mótum Ölduslóðar og Melholts. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið norðaustur Ölduslóð, en hjólreiðamaðurinn fór eftir göngustíg í Melholti til norðvesturs og inn á Ölduslóð. Hjólreiðamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 22. október kl. 9.30 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Bústaðavegar og Suðurhlíðar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Bústaðaveg og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka inn í Suðurhlíð. Hinni bifreiðinni var ekið austur Bústaðaveg, en ökumaður hennar ók gegn rauðu ljósi á gatnamótum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 23. október. Kl. 16.15 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Bæjarháls og Klettaháls. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Bæjarháls, en hinni frá Kletthálsi, þar sem er biðskylda, og inn á gatnamótin. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en sá var ekki með öryggisbelti spennt þegar áreksturinn varð. Og kl. 23.30 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Nýbýlavegar og Furugrundar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Nýbýlaveg, en hinni suður Furugrund og inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi. Þrír farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild, en ökumaður hennar ætlaði jafnframt sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.