6 Október 2020 11:28
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. september – 3. október, en alls var tilkynnt um 35 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 27. september kl. 14.17 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Dalsmára og Lautasmára. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Dalsmára og beygt suður Lautasmára, en hinni var ekið norður Lautasmára og inn á gatnamótin. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. september. Kl. 7.26 var bifreið ekið norður Sæbraut, skammt frá gatnamótunum við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg, og aftan á aðra, sem kastaðist áfram á þá þriðju. Tvær síðarnefndu bifreiðarnar höfðu numið staðar vegna umferðar fram undan, en ökumaður fremstu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 12.35 var vörubifreið ekið yfir óbrotna hindrunarlínu frá vegöxl/bifreiðastæði við Olís í Norðlingaholti og inn á Suðurlandsveg til austurs í sama mund og bifreið var ekið austur Suðurlandsveg svo árekstur varð. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.33 varð árekstur bifhjóls og bifreiðar á Smiðjuvegi. Í aðdragandanum var bifhjólinu ekið norður Smiðjuveg (aðalgata), en bifreiðinni Smiðjuveg í austur (gul gata) svo árekstur varð á gatnamótunum. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 30. september kl. 7.55 varð tveggja bíla árekstur á Suðurlandsvegi við Rauðavatn. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið í austurátt, en hinni í vesturátt. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar missti stjórn á ökutækinu, sem rann þversum yfir á öfugan vegarhelming, en mikil hálka/ísing var á vettvangi. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar úr síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 3. október kl. 19.04 var bifreið ekið vestur Hringbraut, að Melatorgi, og aftan á aðra, sem kastaðist áfram á þá þriðju. Tvær síðarnefndu bifreiðarnar höfðu numið staðar vegna umferðar fram undan. Ökumaður miðju bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.