1 September 2014 12:00
Trampólín á ferð og flugi
Óhætt er að segja að trampólín hafi verið á ferð og flugi í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í óveðrinu sem gekk yfir í gær. Þannig var lögreglu tilkynnt um trampólín á miðri götu í Njarðvík í gærmorgun. Loka varð götunni að hluta meðan björgunarsveitarmenn náðu yfirhöndinni í baráttunni við trampólínið og gátu bundið það við ljósastaur.
Þá fuku tvö trampólín á hús og var ekkert vitað um hvaðan annað þeirra kom. Grunur leikur á að það hafi fokið utan í bifreið, sem á vegi þess varð og skemmt hana.
Fjórða trampólínið fauk á grindverk á sólpalli, þar sem það stöðvaðist. Hið fimmta fauk í hlutum og voru eigendurnir að taka saman grindurnar af því þegar lögreglu bar að garði. Ekki er vitað hvort ferðalag grindanna ollu einhverju tjóni á bifreiðum.
Nú, þegar búast má við fyrstu haustlægðunum brýnir lögregla fyrir fólki að festa niður lausamuni og ganga tryggilega frá fyrir veturinn.
Sviptur undur áhrifum kannabis
Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af allnokkrum ökumönnum um helgina vegna brota á umferðarlögum. Einn þeirra ók, sviptur ökuréttindum, og sýnatökur á lögreglustöð staðfestu jafnframt að hann hafði neytt kannabisefna. Annar ók á girðingu og fór af vettvangi. Lögregla hafði fljótlega upp á viðkomandi, sem var vistaður í fangaklefa vegna gruns um ölvun við aksturinn. Sá þriðji ók með útrunnin réttindi.
Loks voru þrír ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 138 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund.
Komu að skemmdum bíl
Erlendum ferðamönnum, sem brugðið höfðu sér í Bláa lónið í gær brá heldur betur í brún þegar þeir komu að bílaleigubifreið sinni sem þeir höfðu lagt í rúmgott stæði. Stór dæld var komin í framhurð bifreiðarinnar, að líkindum eftir ákeyrslu, en enginn sást sökudólgurinn. Fólkið leitaði til öryggisvarða á staðnum og tilkynntu að auki lögreglunni á Suðurnesjum um atvikið. Málið er í rannsókn.