2 Mars 2015 13:53
Lögreglan á Suðurnesjum var nýverið kvödd að einum landganga í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna tösku sem verið var að ferma um um borð í flugvél á leið til London. Þótti taskan sú arna láta heldur grunsamlega því hún var öll á iði. Lögreglumenn höfðu upp á eiganda hennar, erlendri konu, og veitti hún leyfi til þess að taskan yrði opnuð. Gaf þá að líta tæki sem konur hafa stundum við höndina sér til yndisauka, svokallaðan titrara, sem hrokkið hafði í gang. Var slökkt á tækinu og taskan sett um borð að því búnu.
Atvik af svipuðu tagi eiga sér alltaf öðru hvort stað á Keflavíkurflugvelli og er flugfarþegum bent á að ganga þannig frá rafmagnstækjum, svo sem rakvélum, tannburstum og öðru slíku að þau geti ekki hrokkið í gang við minnsta núning eða högg.