17 Febrúar 2021 11:21
Skráð voru 666 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í janúar og fækkaði þessum brotum á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir janúar 2021.
Tilkynningum um þjófnaði fækkaði töluvert á milli mánaða sem og tilkynningum um innbrot. Það sem af er ári hafa borist um 16 prósent færri tilkynningar um þjófnaði og um 15 prósent færri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan.
Skráðum ofbeldisbrotum fjölgaði á milli mánaða sem og tilkynningum um heimilisofbeldi. Tilvikum þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi fjölgaði einnig á milli mánaða.
Mikil fjölgun var á skráðum kynferðisafbrotum í janúar en það má einna helst rekja til aðgerða lögreglunnar í vændismálum. Undanfarnar vikur hefur LRH verið í sérstökum aðgerðum tengt mansali en vændi er ein af birtingarmyndum mansals. Þetta er einn af þeim þáttum í skipulagðri brotastarfsemi sem LRH leggur mikla áherslu á.
Alls bárust 24 beiðnir um leit að börnum og ungmennum í janúar og fjölgar þessum beiðnum á milli mánaða.
Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði i á milli mánaða og voru fimm stórfelld fíkniefnabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fækkaði á milli mánaða líkt en tilkynningar þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur fjölgaði.
Í desember voru skráð 646 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum). Það sem af er ári hafa verið skráð um 16 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.