20 Ágúst 2018 14:30
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlímánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Skráð voru 667 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júlí. Ekki hafa verið skráð jafn fá mál í einum mánuði síðan í febrúar 2017 þegar skráð voru 605 mál. Heilt yfir fækkaði brotum í flestum brotaflokkum miðað við fjölda síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Til að mynda fækkaði tilkynningum um ofbeldisbrot nokkuð á milli mánaða. Skráð var 101 ofbeldisbrot hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í júlí síðastliðnum sem eru um 21 prósent færri mál en komu á borð lögreglunnar í júní. Umferðarlagabrotum fjölgaði í júlí miðað við fyrri mánuði. Skráð voru 1.273 umferðarlagabrot í júlí en um 1.239 í júní. Þar af fjölgaði tilkynningum um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna nokkuð. Skráð voru 189 brot í júlí en 163 í júní síðastliðnum. Þetta er því annar mánuðurinn í röð þar sem þessi brot eru flest frá upphafi hjá embættinu.