9 Október 2017 15:32
Gjaldtaka á vegum einkaaðila hefur farið fram á vegi að Hraunfossum og Barnafossi í Hvíta í Borgarfirði en fossarnir eru friðlýstir sem náttúruvætti, sbr. auglýsing nr. 410/1987 sem gefin var út í menntamálaráðuneytinu 2. september 1987 og birt í B deild Stjórnartíðinda.
Vegagerðin hefur komið því á framfæri við lögreglu, að vegur innan friðlýsta svæðisins sé skráður í vegaskrá skv. 1. mgr. 7. gr. vegalaga nr. 80/2007, beri númerið 522-01 og sé tengivegur skv. b-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga.
Vegagerðin vísar til þess að þjóðvegir séu opnir almennri umferð skv. 1. mgr. 8. gr. vegalaga og að Vegagerðin, sem veghaldari umrædds vegar skv. 13. gr. vegalaga, hafi ekki veitt heimild til gjaldtöku fyrir notkun á þessum vegi.
Vegagerðin vísar til þess að gjaldtaka, án heimildar skv. 17. gr. vegalaga, fyrir notkun vegarins feli í sér óleyfilega hindrun á umferð um þjóðveg.
Vegagerðin hefur farið þess á leit að lögreglan gefi þeim sem standa fyrir slíkri gjaldtöku af vegfarendum fyrirmæli um að láta af þeirri háttsemi og framfylgi þeim fyrirmælum.
Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. vegalaga varða brot á lögunum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Það er ákvörðun lögreglustjórans á Vesturlandi að verða við beiðni Vegagerðarinnar.
Þá telur lögreglustjóri að aðstæður séu til þess fallnar að skapa verulega hættu við þjóðveginn svo ekki verði við unað.