19 Ágúst 2020 17:37
Engin ný smit hafa greinst á Austurlandi frá því 16. ágúst sl. Þau tíðindi eru afar jákvæð og í besta falli vísbending um að tekist hafi að hægja á eða stöðva þá þróun sem byrjuð var. Of snemmt er þó að fagna sigri. Það hversu hröð þróunin var sýnir enn mikilvægi varkárni okkar í hvívetna, hvar sem við erum stödd hverju sinni.
Aðgerðastjórn á Austurlandi hvetur að þessu sögðu íbúa til að nýta smitrakningaappið sem hefur hraðað mjög vinnu við smitrakningu. Fljótlegt og auðvelt er að hlaða appinu á farsíma. Hægt er að nálgast það á vefslóðinni https://www.covid.is/app/is.
Norræna kemur í fyrramálið til Seyðisfjarðar. Það er síðasta ferð hennar á sumaráætlun þessa árs. Nokkuð hefur borið á afbókunum í kjölfar reglna um ferðatakmarkanir á landamærum. Því er búist við umtalsvert færri farþegum en í síðustu ferðum. Allir farþegar koma skimaðir til landsins og fara í fimm til sex daga sóttkví í samræmi við reglur.