5 Júní 2020 17:26
Enginn er með virkt COVID-19 smit á Austurlandi.
Svo sem fram hefur komið er sýnataka á farþegum er koma til landsins fyrirhuguð frá og með 15. júní næstkomandi. Af þeim sökum freistaði aðgerðastjórn á Austurlandi þess að greina hvernig best myndi að sýnatöku staðið í Norrænu og á flugvellinum á Egilsstöðum. Var það gert í ljósi þess að talsvert mun að líkindum mæða á Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) við verkefnið en einnig lögreglu og fleiri sem aðkomu hafa að eftirliti og umsjón á báðum stöðum. Greiningin var unnin í samráði við stjórnendur Smyril line vegna Norrænu og ISAVIA vegna flugvallarins. Minnisblað var ritað í kjölfarið með tillögum að framkvæmd sýnatöku. Það var í gær sent Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra til skoðunar og meðferðar.
Aðgerðastjórn áréttar enn sem fyrr við íbúa fjórðungsins að gæta vel að eigin smitvörnum, að tveggja metra reglunni, handþvotti og sprittnotkun. Þykir sérstök ástæða til að gefa út slíka áréttingu nú þegar ferðamenn eru að nýju farnir að fara um landið og mun fjölga talsvert ef að líkum lætur næstu vikur og mánuði.
Hugum að smitvörnum nú sem fyrr, það er full ástæða til.