14 Ágúst 2015 14:23
Með nútímatækni hafa brot sem tengjast stolnum greiðslukortaupplýsingum orðið sífellt algengari. Er um að ræða alþjóðlegt vandamál sem í mörgum tilvikum tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Þau mál sem upp hafa komið hjá lögreglunni hér á landi sýna að Ísland er engin undantekning þegar þessi brotastarfsemi er annars vegar.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur frá lokum ársins 2014 haft til meðferðar níu mál er varða ætluð fjársvik erlendra manna gagnvart flugfélögum, þar sem flugmiðar eru greiddir með stolnum greiðslukortaupplýsingum (e. Airline Ticket Fraud). Þá hafa verið til meðferðar þrjú mál þar sem búnaður til afritunar greiðslukortanúmera og framleiðslu á greiðslukortum hefur fundist við tollskoðun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá árinu 2014 hefur embættið tekið virkan þátt í samstarfi Evrópulögreglunnar, Europol, gegn fjársvikum af þessu tagi. Hefur hluti fyrrnefndra mála komið upp á alþjóðlegum aðgerðardögum á þeim vettvangi, sem stýrt er af starfshópi hjá Europol, í samvinnu við löggæslustofnanir, flugfélög og kortafyrirtæki um allan heim. Má geta þess að á aðgerðardögum sem fram fóru 16. og 17. júní sl. bárust 222 tilkynningar um grunsamlegar kortafærslur og voru 130 manns handteknir á flugvöllum víða um heim, þar af einn hér á landi.
Þessa dagana hefur lögreglan á Suðurnesjum til meðferðar fjögur mál sem varða ætluð fjársvik við kaup á flugmiðum. Nemur andlag ætlaðra brota milljónum króna og sæta þrír menn gæsluvarðhaldi og einn farbanni vegna þeirra. Einn þessara manna er jafnframt grunaður um aðild að umfangsmiklum fjársvikum gagnvart íslenskum verslunum, þar sem stolin greiðslukortanúmer voru notuð til greiðslu á m.a. dýrum tölvubúnaði í gegnum vefsíður verslananna og varningurinn sendur á hótel og gistiheimili í Reykjavík.
Í öllum framangreindum málum hafa stolin greiðslukortanúmer verið notuð og við rannsókn þeirra hefur komið í ljós að auk greiðslukortanúmera liggja fyrir upplýsingar um korthafa, heimilisföng og jafnvel netföng og símanúmer þeirra. Virðast þessar upplýsingar eiga uppruna sinn af sölusíðum á veraldarvefnum sem hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum og ganga svo kaupum og sölum á veraldarvefnum.
Lögreglan á Suðurnesjum hvetur söluaðila hér á landi til að huga að öryggisþáttum vefsíðna sinna til að sporna við háttsemi af þessu tagi og gefa gaum að grunsamlegum pöntunum. Þá er almenningur hvattur til að kynna sér hvernig tryggja megi öryggi í viðskiptum á veraldarvefnum. Leiki grunur á misferli með upplýsingar af þessu tagi eru söluaðilar og korthafar hvattir til að hafa samband við lögreglu.