20 Október 2009 12:00
Lögreglan á Selfossi handtók um hádegi í gær þrjá Litháa í Grímsnesi. Ástæðan var grunur um aðild að þjófnaði úr ferðamannaversluninni á Geysi fyrir rúmri viku þegar stolið var vörum fyrir um 400 þúsund krónur. Lögregla fékk ábendingu um að mennirnir hefðu verið staddir á Geysissvæðinu í hádeginu í gær, líklega til að endurtaka leikinn frá því vikunni áður. Starfsfólk verslunarinnar hafði eftirlit með þeim inni í versluninni. Mennirnir þrír yfirgáfu búðina án þess að eiga þar viðskipti eða hafa nokkuð með sér. Eftir handtöku voru mennirnir færðir í fangageymslu á Selfossi. Í kjölfarið fóru lögrelgumenn frá Selfossi til Reykjavíkur til að leita að fjórða manninum sem grunaður var um aðild að þjófnaðinum í ferðamannaversluninni. Hann fannst eftir að leitað hafði verið á tíu stöðum í höfuðborginni. Kona sem talin er eiga hlutdeild í þjófnaðinum var handtekin í Reykjavík í morgun og færð til yfirheyrslu á Selfossi.
Lögreglumenn á Selfossi hafa í morgun yfirheyrt fólkið. Fyrir liggur játning í málinu og það upplýst. Þrír karlanna ásamt konunni stóðu að þjófnaðinum. Fjórði karlmaðurinn átti engan þátt í brotinu og hafði góða og gilda fjarvistarsönnum þar sem hann dvaldi í fangelsi á þeim tíma sem þjófnaðurinn átti sér stað.
Fólkið er grunað um að hafa staðið að búðahnupli og þjófnuðum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Lögreglustjórinn á Selfossi mun strax í dag gefa út ákæru á hendur fjórmenningunum jafnframt því að tilkynna Útlendingastofu um málið sem mun taka ákvörðun um brottvísun fólksins af landinu.