31 Júlí 2015 13:42
Töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyja og er töluverður fjöldi gesta kominn til Eyja. Tilkynnt var um hópslagsmál fyrir utan veitingastaðinn Lundann undir morgun og í framhaldi af því voru tveir handteknir og færðir í fangageymslu. Einn var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslu. Ekki er talið um alvarlega áverka að ræða.
Átta fíkniefnamál hafa komið upp frá því í gær. Í einu af þessum málum fundust um 25 gr. af maríhúana eftir húsleit. Í hinum málunum var haldlagt amfetamín og kókaín. Um sex lögreglumenn með þrjá fíkniefnahunda sinna þessu eftirliti þessa helgi.
Í morgun var tilkynnt um nytjastuld á bifreið sem var stolið. Bifreiðin fannst skömmu síðar og hafði hún orðið fyrir nokkrum skemmdum. Málið er í rannsókn en enginn hefur verið handtekinn.
Í tilefni af umræðu síðustu daga um fréttir af kynferðisbrotum tilkynnist að upplýsingar vegna slíkra mála sem mögulega koma upp verða veittar um leið og hagsmunir brotaþola eru tryggðir sem og rannsóknarhagsmunir.
Hátíðin verður sett kl. 14:30 í dag og áfram streyma gestir til Eyja með flugi og Herjólfi. Áætlað er að fjöldi gesta verði eins og á meðalstórri hátíð. Veðrið er nú eins og best verður á kosið og sama má segja um veðurspá næstu daga.