3 Ágúst 2015 12:35
Töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum vegna ölvunarútkalla og um tíma voru fangageymslur fullar en margir þurftu að sofa úr sér vegna ölvunarástands. Þeir hafa því fengið að yfirgefa lögreglustöðina þegar af þeim hefur runnið. Einn gisti fangageymslu vegna líkamsárásar þar sem hann skallaði konu í andlit í Herjólfsdal. Lögreglumenn urðu vitni að árásinni og handtóku þeir árásaraðilann og færðu í fangageymslu. Skýrsla verður tekin af honum í dag. Konan hlaut minniháttar áverka. Um tengda aðila er að ræða og ekki hefur verið lögð fram kæra.
Á þjóðhátíðinni komu upp um 70 fíkniefnamál frá því lögreglan hóf átak sitt fyrir helgina í þessum málaflokki. Langmest var tekið af amfetamíni og kókaíni og mun minna af kannabis efnum en á öðrum hátíðum. Upplýst er að um sölu var að ræða í hluta þessara mála. Í stærsta málinu var aðili handtekinn með á fimmta tug gramma af amfetamíni og kókaíni. Þessi málafjöldi er sá mesti á þjóðhátíð og má að mestu rekja til þess hversu vel þessum málaflokki var sinnt. Lögreglan var með sex lögreglumenn og þrjá fíkniefnaleitarhunda að sinna þessu eftirliti um helgina sem skilaði þessum árangri.
Engar alvarlegar líkamsárásir voru kærðar til lögreglunnar þessa hátíð. Til meðferðar hjá lögreglunni eru mál vegna minniháttar líkamsárása en ekki liggur fyrir hvort þær verði kærðar.
Aðeins fjögur umferðarlagabrot voru kærð á þessari hátíð en um var að ræða tvo ökumenn sem voru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hin brotin voru vegna réttindaleysis og aksturs án öryggisbeltis.
Það er mat lögreglunnar í Vestmannaeyjum að Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2015 hafi farið vel fram miðað við þann fjölda sem hingað kom að skemmta sér. Áætlað er að um 15 þúsund manns hafi verið á Brekkusöngnum í gærkveldi. Veðrið lék við gesti hátíðarinnar þessa daga, þurrt, nánast logn og nokkuð hlýtt. Nú er fólk farið a streyma til síns heima og siglir Herjólfur stanslaust í Landeyjahöfn næsta sólarhringinn og einnig farþegabáturinn Víkingur. Þá er loftbrú með flugi frá Eyjum. Það er von lögreglunnar í Vestmannaeyjum að allir komist heilir til síns heima. Ökumenn vari sig á að fara ekki of snemma af stað eftir skemmtun næturinnar og sýni þolinmæði í umferðinni á fastalandinu.