4 Ágúst 2015 14:56
Lögregla telur 15.000 manns hafa sótt þjóðhátíð Vestmannaeyja að þessu sinni. 26 lögreglumenn sinntu löggæslu og 100 gæslumenn. Auk þeirra var starfandi læknir í dalnum og annað heilbrigðisstarfsfólk, áfallateymi og sjúkraflutningamenn. Áfallateymi aðstoðaði fólk við ýmis mál svo sem sjálfsvígshugsanir, kvíða og fleira. Barnaverndarstarfsmenn sinntu auk þess málum barna undir 18 ára aldri sem komu upp á hátíðinni.
Umferð gekk vel þessa helgi og akstur farþegaflutningabifreiða einnig. Hringtorg í dalnum kom vel út og nokkuð vel gekk að aðgreina gangandi vegfarendur frá akandi.
Fíkniefnamál voru mörg þessa hátíðina og hafa aldrei verið fleiri en 72 mál komu upp enda var þessum málaflokki vel sinnt. Mest var haldlagt af hvítum efnum og í að minnsta kosti 5 þeirra var um sölu og dreifingu að ræða. Að mati lögreglu þykir þessi árangur í fíkniefnamálum hafa komið í veg fyrir alvarleg ofbeldisbrot þar sem þekkt er að af neyslu hvítra efna verða menn árásargjarnari en ella.
Engar alvarlegar líkamsárásir voru kærðar til lögreglu en sex mál vegna minniháttar líkamsárása eru til rannsóknar án þess þó að hafa verið kærðar. Eitt mál kom upp er varðar nytjastuld og eignaspjöll og hefur það verið upplýst.
Tvö kynferðisbrot komu til rannsóknar hjá lögreglu. Fyrra málið kom inn á borð lögreglu aðfaranótt sunnudags en meint brot á að hafa átt sér stað í kringum miðnætti kvöldið áður. Þolandinn, ung stúlka, fékk viðeigandi aðstoð og var flutt á neyðarmóttöku á Landspítalann í Reykjavík og var tilnefndur réttargæslumaður. Rannsókn er að mestu lokið en óljóst um málsatvik.
Seinna málið var tilkynnt lögreglu að kvöldi sunnudags en á að hafa átt sér stað eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags. Um tengda aðila er að ræða og fékk konan viðeigandi aðstoð og var flutt á neyðarmóttöku á Landspítalann í Reykjavík og var tilnefndur réttargæslumaður. Vettvangur var rannsakaður og sakborningur handtekinn af lögreglu skömmu eftir tilkynningu þar sem skipulögð leit fór fram af honum í Herjólfsdal. Málið telst upplýst og rannsókn vel á veg komin.
Miðað við fyrri hátíðir fór þjóðhátíðin vel fram og er það mat lögreglu að löggæsla hafi gengið vel á hátíðinni og gæsla hafi verið öflug. Viðbragð í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd var gott og fjölmörgum sem var sinnt vegna mismunandi erfiðleika. Það er miður að upp hafi komið kynferðisbrot en áhersla var á vönduð og fagleg vinnubrögð við þeim þar sem rannsóknarhagsmunir og hagsmunir brotaþola voru settir í forgang. Það er mat lögreglu og áfallateymis að vel hafi tekist til með að senda ekki tafarlausar upplýsingar um alvarlegustu brotin til fjölmiðla heldur að veita slíkar upplýsingar á réttum tímapunkti eins og alltaf hafi staðið til.