Tæplega helmingur höfuðborgarbúa telja sig örugga í miðborg Reykjavíkur

12 Febrúar 2017 08:05
Síðast uppfært: 10 Febrúar 2017 klukkan 15:45

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt skýrslu með niðurstöðum úr árlegri könnun á viðhorfum til lögreglu, ótta við afbrot og reynslu af þeim. Skýrsluna má nálgast hér. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að mikill meirihluti höfuðborgarbúa, um það bil níu af hverjum tíu, telja sig örugga eina á gangi í eigin hverfi eftir myrkur. Hlutfall þeirra sem telja sig örugga í miðborg Reykjavíkur þegar myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar er hins vegar töluvert minna. Rúmlega helmingur höfuðborgarbúa telja sig óörugga, hefur þetta hlutfall lítið breyst líkt og myndin hér að neðan sýnir. Töluverður munur var á mati á öryggi eftir kyni. Um tveir af hverjum þremur körlum telja sig örugga en rétt um þriðjungur kvenna. Eins eykst hlutfall þeirra sem telja sig óörugga eftir því sem fólk býr lengra frá miðborginni. Þannig telja íbúar í Miðborg og Gamla Vesturbænum sig öruggasta (71%), en íbúar í Garðabæ, Álftanesi (35%), Mosfellsbæ og á Kjalarnesi (36%) telja sig síður örugga.

Gagnaöflunin fór fram dagana 24. maí til 9. júní 2016 og var framkvæmd af Gallup fyrir embætti Ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Tekið var 2.000 manna tilviljunarúrtak fólks á aldrinum 18 ára og eldra af höfuðborgarsvæðinu úr netpanel Gallup. Fjöldi svarenda var 1.372 og svarhlutfallið því 68,6 prósent. Gögnin voru vigtuð fyrir kyni, aldri og menntun svarenda.