4 Mars 2021 16:21
Stöðufundur var í morgun með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fulltrúum Múlaþings, Veðurstofu, fulltrúa heimastjórnar á Seyðisfirði og fleirum. Farið var yfir gang hreinsunarstarfs meðal annars, bráðabirgðahættumat, líkanreikninga, vöktunarmæla og rýmingarkort.
Hreinsun rústa og björgun muna við Slippinn er komin vel áleiðis. Þar með fer að sjá fyrir endann á eiginlegu hreinsunarstarfi þó enn sé mikið eftir í uppbyggingu og lagfæringum. Tvær vélar eru notaðar við að móta setþró innan varnargarða ofan við Slippinn. Við Nautaklauf var verið að ganga frá grjóthleðslum í farveginum og ganga frá endum efst á varnargarðinum. Verið er að vinna að undirbúningi aðgerða við vatnsfarveg yfir Fossgötu. Hönnun og undirbúningur er enn í gangi fyrir nýja veituþverun á Búðará, en þar er flækjustigið nokkuð vegna umfangs á lögnum.
Síðustu vikuna hefur verið unnið hörðum höndum að líkanreikningum á skriðum sem gætu fallið úr þelaurðinni undir Strandartindi. Þeir eru á lokastigi og nú hefst vinna við að túlka niðurstöðurnar og meta áhættu við farvegi Búðarár og Stöðvarlækjar.
Fest hafa verið kaup á 6 sjálfvirkum GPS stöðvum til viðbótar við þær þrjár sem fyrir eru. Þegar þeim hefur verið komið upp verður staðan betri fyrir vöktun á meðan úrkoma gengur yfir og mælingar með alstöð verða torveldari sökum lélegs skyggnis. Einnig er unnið að því að streyma gögnum fyrir vaktina á eina síðu þar sem vaktin getur fylgst með öllum mælitækjum á einum stað.
Unnið er að hönnun og útgáfu á skiltum til dreifingar á Seyðisfirði með ráðum til íbúa um það hvað hafa skuli í huga komi til rýmingar. Þá er rýmingarkort í vinnslu.
Þjónustumiðstöð almannavarnadeildar er ekki lengur með viðveru í Herðubreið. Starfsfólk miðstöðvarinnar tekur við fyrirspurnum og athugasemdum í síma 839-9931. Einnig er hægt að senda netpóst á netfangið sey@logreglan.is
Spurningar sem hafa borist í kjölfar íbúafunda og til þjónustumiðstöðvar eru settar með svörum á vef Múlaþings, mulathing.is jafnóðum og þau berast. Þar má finna fróðleik og svör við mörgum spurningum. Félagsþjónusta Múlaþings býður upp á viðtöl á mánudögum í Íþróttahúsi Seyðisfjarðar. Sálfræðiþjónusta er í boði á miðvikudögum á heilsugæslu HSA á Seyðisfirði, símapöntun í síma 470-3000.
Að lokum er minnt á vikulega íbúafundi á Seyðisfirði sem haldnir eru á vef Múlaþings. Næsti fundur verður mánudaginn 8. mars kl. 17:00.