28 Janúar 2008 12:00
Ríkislögreglustjóri hefur skipað tvo starfshópa; annan til þess að fjalla um forgagnsakstur lögreglubifreiða og hinn sem hefur eftirlit með ökutækjum lögreglunnar og búnaði sem lögreglumenn nota í störfum sínum.
Starfshópur um forgangsakstur er skipaður þeim Arnari Guðmundssyni, skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, sem jafnframt er formaður hópsins, Steinari D. Adólfssyni, framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, Agli Bjarnasyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Eiríki Hreini Helgasyni, yfirlögregluþjóni við Lögregluskólann, og Guðmundi Guðjónssyni, yfirlögregluþjóni hjá embætti ríkislögreglustjóra. Starfshópnum er falið að endurskoða reglur um ökutæki lögreglunnar og forgangsakstur, þjálfun í akstri við ýmsar aðstæður, og fleira.
Starfshóp um eftirlit með ökutækjum lögreglunnar leiðir Agnar Hannesson þjónustu- og rekstrarstjóri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, en aðrir í hópnum eru þeir Kristinn Sigurðsson, frá Landssambandi lögreglumanna, og Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn. Þessum hópi er meðal annars ætlað að fara yfir álitamál sem upp koma ef grunur leikur á ætluðum brotum lögreglumanna á reglum um meðferð og notkun á ökutækjum og öðrum búnaði lögreglunnar, að meta tjón sem verða á þessum tækjum við ýmsar aðstæður hjá lögreglumönnum og hvernig draga megi úr tjónakostnaði.