3 Júlí 2015 11:49
Lögreglumenn á Suðurnesjum handsömuðu síðdegis í fyrradag karlmann á fertugsaldri sem var á sprettinum eftir að hafa stolið 11 pakkningum af kjúklingabringum úr Bónus. Bringunum, að verðmæti rúmlega 23 þúsund krónur, hafði maðurinn troðið í bakpoka sem hann var með og hljóp svo út úr versluninni. Tveir starfsmenn Bónuss hlupu á eftir honum austur Reykjanesbraut en komust ekki í návígi við hann því þá kastaði hann til þeirra grjóti. Maðurinn henti bakpokanum frá sér á hlaupunum þegar hann varð eftirfararinnar var. Hann var handtekinn og færður til skýrslutöku á lögreglustöð og sleppt að því búnu.