13 Nóvember 2009 12:00
Í dag lauk sporleitarnámskeiði sem embætti ríkislögreglustjóra og Lögregluskóli ríkisins stóðu að fyrir löggæsluhunda og hundaþjálfara. Aðalleiðbeinandi á námskeiðinu var Steinar Gunnarsson yfirhundaþjálfari hjá embætti ríkislögreglustjóra en honum til aðstoðar var Höskuldur Erlingsson varðstjóri hjá lögreglunni á Blönduósi.
Námskeiðið stóð yfir í fjóra daga og fór fram að Gufuskálum á Snæfellsnesi. Það sóttu tólf teymi hundaþjálfara og löggæsluhunda frá lögreglu, tollgæslu og Fangelsismálastofnun.
Á námskeiðinu öðlast þjálfararnir þekkingu og skilning á sporleit og teymin fá grunnþjálfun í að finna og rekja slóðir týndra manna og brotamanna. Þessi þjálfun er að mörgu leyti sambærileg og sporhundateymi björgunarsveita fá nema að því marki að hún er sérhæfð fyrir lögreglu, t.a.m. varðandi umgengni við sönnunargögn.
Flestir hundarnir á námskeiðinu eru jafnframt þjálfaðir í fíkniefnaleit. Sporleit er góð viðbót við þá þjálfun og eykur nýtingu hundanna til muna. Fyrirhugað er að fylgja sporleitaþjálfun lögregluhundanna eftir með sama hætti og gert er með þjálfun í fíkniefnaleit, þ.e. að teymin fái starfsleyfi í þágu lögreglunnar við sporleit. Þessi háttur hefur tíðkast lengi hjá nágrannaþjóðum okkar og gefið góða raun.
Embætti ríkislögreglustjóra, sem hefur umsjón með þessum málum lögreglunnar á landsvísu, á mikið og gott samstarf við tollgæsluna og stofnanir á þessu sviði, hérlendis og í öðrum löndum.
Á myndinni hér að neðan má sjá Gunnar Knutsen lögreglumann á Akureyri og leitarhundinn Pippin við sporleit.