23 Október 2011 12:00
Lögreglan á Selfossi rannsakar nú mál manns sem handtekinn var á heimili sínu í Þorlákshöfn í nótt. Maðurinn er grunaður um að hafa hleypt af skoti eða skotum á eða við heimili sitt en óljóst er um tilgang þess. Hann hafði einnig skorið eða skrámað sig með hníf.
Tilkynningin barst til lögreglu kl. 04:07 og tryggðu lögreglumenn frá Selfossi og sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra vettvang. Maðurinn, sem er á fertugs aldri, kom síðan sjálfviljugur út úr húsi sínu, kl. 04:46 og gaf sig fram við sérsveitarmenn eftir að hafa rætt við sérþjálfaðann samningamann lögreglu í síma. Aðrir voru ekki í húsinu. Hann var færður í fangahús og verður yfirheyrður síðar í dag.
Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.