12 Mars 2014 12:00

Í tilefni af umfjöllun um skipun ríkislögreglustjóra í stöðu lögreglufulltrúa í framhaldsdeild Lögregluskólans er rétt að upplýsa um eftirfarandi:

Hvorki innanríkisráðherra né nokkur annar hefur rætt við starfsmenn ríkislögreglustjóra sem komu að meðferð og ákvörðun um skipun í embættið, þ. á m. ríkislögreglustjóra. Ekki eru dæmi þess að ráðherra hafi reynt að hafa áhrif á eða afskipti af skipunum eða setningum ríkislögreglustjóra í lögregluembætti, en þær stöðuveitingar skipta a.m.k hundruðum. Embættið rekur ekki minni til þess í 16 ára sögu að stöðuveitingar ríkislögreglustjóra hafi fyrr fengið á sig pólitískan stimpil og er ásökun um pólitíska stöðuveitingu vísað til föðurhúsanna.

Ríkislögreglustjóri var í gær upplýstur um skyldleika Birnu Guðmundsdóttur og ráðherra. Þótt þær upplýsingar hefðu legið fyrir við meðferð málsins og áður en skipað var í embættið þann 31. janúar sl. hefði það engu breytt um hæfi hennar til að hljóta skipun í embættið.

Fyrir lá tillaga Lögregluskólans. Ríkislögreglustjóri sem fer með skipunarvaldið er ekki bundinn af tillögum skólans heldur metur sjálfstætt og málefnalega hæfi allra umsækjenda.

Hér má lesa auglýsingu um stöðuna, auglýsing nr. 34/2013  Um var að ræða stöðu lögreglufulltrúa í framhaldsdeild Lögregluskólans sem heyrir undir Eirík Hrein Helgason, yfirlögregluþjón.

Alls sóttu 18 um embættið, 14 karlar og 4 konur. Einn umsækjenda uppfyllti ekki hæfisskilyrði og einn dró umsókn sína til baka.  Fimm umsækjenda óskuðu eftir rökstuðningi fyrir stöðuveitingunni og tveir þeirra óskuðu jafnframt eftir gögnum málsins.

Ríkislögreglustjóri telur rétt, eins og til háttar í máli þessu, að birta hér rökstuðning embættisins fyrir stöðuveitingunni í heild sinni.

Fyrir liggur samþykki Birnu Guðmundsdóttur, en nöfn þeirra tveggja lögreglumanna sem metnir voru jafnhæfir hafa verið fjarlægð.

Rökstuðningur ríkislögreglustjóra fyrir stöðuveitingunni:

Hér er farið yfir rökstuðning vegna ákvörðunar ríkislögreglustjóra um að skipa Birnu Guðmundsdóttur í stöðu lögreglufulltrúa við Lögregluskóla ríkisins, sbr. auglýsingu nr. 34/2013.

Í samræmi við rökstuðningsreglur 21. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hér á eftir vísað til réttarreglna sem úrlausn málsins laut að og greint frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat og val á hæfasta umsækjanda, svo og upplýst um þau atvik og atriði sem verulega þýðingu höfðu í því samhengi.

Um var að ræða stöðu lögreglufulltrúa við framhaldsdeild Lögregluskólans. Greint var frá því í auglýsingu að meðal verkefna yrði að annast skipulagningu og framkvæmd starfsþróunarnámskeiða fyrir lögreglumenn og eftir atvikum annarra starfsmanna lögreglunnar og því væri reynsla af verkefnastjórnun góður kostur. Hluti af starfsskyldum viðkomandi myndi felast í kennslu tiltekinna námskeiða og þeim sem ráðinn yrði til starfans kynni auk þess, samkvæmt ákvörðun skólastjóra, að verða falið að sinna verkefnum í grunnámsdeild eða öðrum verkefnum innan stofnunarinnar.

Í auglýsingunni var kveðið á um að umsækjendur skyldu hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins og samkvæmt 3. mgr. 14. gr. reglugerðar um starfsstig innan lögreglunnar nr. 1051/2006, skal sá sem hlýtur skipun í starfið hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti 2 ár frá því að hann lauk prófi frá Lögreglu­skóla ríkisins. Umsækjendur þurftu að hafa góða faglega þekkingu á málefnum lögreglunnar, gott vald á íslensku, góða almenna tölvukunnáttu og nauðsynleg var góð enskukunnátta og tök á a.m.k. einu norðurlandamáli. Kennaramenntun, reynsla af fjarkennslu, eða önnur framhaldsmenntun sem nýtist í starfinu, var talinn góður kostur og einnig var kostur að hafa reynslu af þjálfun eða kennslu. Reynsla af verkefnastjórnun var talin góður kostur. Í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglu og jafnréttisáætlunar lögreglunnar voru konur hvattar til þess að sækja um.

Með tilliti til framangreinds voru umsækjendur metnir í ljósi þess markmiðs að velja þann hæfasta úr hópi umsækjenda.

Alls bárust 18 umsóknir um auglýsta lausa stöður lögreglufulltrúa við Lögregluskóla ríkisins. Einn umsækjandi dró umsókn sína til baka og einn uppfyllti ekki þá hæfnikröfu að hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti 2 ár frá útskrift, sbr. 3. mgr. 14. gr. reglugerðar 1051/2006. Alls komu því 16 umsækjendur til álita.

Allir umsækjendur voru kallaðir til viðtals hjá Lögregluskóla ríkisins. Samræmd nálgun var í viðtölunum og sömu spurningar á grundvelli hæfnikrafna lagðar fyrir alla umsækjendur.

Birna Guðmundsdóttir lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins árið 2009. Hún hefur starfað við almenna löggæslu á Suðurnesjunum og höfuðborgarsvæðinu, í landamæradeild við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og við lögreglurannsóknir við sama embætti. Birna hefur lokið BA gráðu í sálfræði frá Converse College í South Carolina og MSc. gráðu í réttarsálfræði frá háskólanum í York í Bretlandi. Utan starfa í lögreglu hefur hún starfað sem ráðgjafi í barnaverndarmálum og sem ráðgjafi við geðræktarmiðstöð og starfsendurhæfingu. Í starfi sínu hjá Samvinnu, starfsendurhæfingu á Suðurnesjum sinnti hún verkefnastjórnun og þjálfun. Háskólamenntun Birnu á sviði réttarsálfræði og reynlsa í barnaverndarmálum var talin geta nýst vel í starfi hjá Lögregluskólanum auk þess að styrkja skólann verulega. Vó menntun Birnu því þungt við mat á hennar hæfni.

Ríkislögreglustjóri mat hæfni umsækjanda á grundvelli umsóknargagna og málefnanlegra sjónarmiða svo sem menntunar, starfsaldurs, reynslu í starfi auk núverandi starfsstigs umsækjanda. Við mat og val á hæfasta umsækjanda var meðal annars litið til þess sjónarmiðs að þeir umsækjendur sem væru nú starfandi sem lögreglumenn kæmu frekar til greina en umsækjendur sem ekki höfðuð starfað við lögreglustörf í lengri tíma, en á meðal umsækjenda voru hæfir einstaklingar sem þó ekki höfðu starfað innan lögreglunnar í lengri tíma.

Með tilliti til ofangreindra atriða var niðurstaða ríkislögreglustjóra að Birna Guðmundsdóttir, lögreglumaður X og lögreglumaður Y væru jafnhæf til að gegna starfi lögreglufulltrúa við Lögregluskóla ríkisins.

Litið var til markmiðs jafnréttislaga nr. 10/2008, sem fram kemur í 1. gr. laganna, og dómaframkvæmdar Hæstaréttar þar sem komið hefur fram að meginreglur jafnréttislaga þurfi að skýra svo að konu skuli veita starf, ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin er varðar menntun og annað sem máli skiptir og karlmaður sem við hana keppir ef á starfssviðinu eru fáar konur.

Samkvæmt upplýsingum ríkislögreglustjóra, frá 1. febrúar 2013, eru konur sem eru starfandi lögreglufulltrúar 17 talsins en karlmenn 73. Af því leiðir að af starfandi lögreglufulltrúum eru konur aðeins 18,9%. Þá má einnig nefna að þann 31. janúar sl., þegar Birna var skipuð, var engin lögreglukona starfandi við Lögregluskólann. Frá 1. febrúar var þó ein kona skipuð lögreglufulltrúi við grunnnámsdeild skólans en 4 karlmenn gegna stöðu lögreglufulltrúa og tveir karlmenn gegna stöðu yfirlögregluþjóns. Þá er skólastjóri Lögregluskólans einnig karlmaður. 

Með vísan til framangreindra atriða var það mat ríkislögreglustjóra að meta Birnu Guðmundsdóttur sem hæfasta umsækjandann í embætti lögreglufulltrúa við Lögregluskóla ríkisins. Var sú ákvörðun að skipa hana í starfið byggð á grundvelli þeirra málefnanlegu sjónarmiða sem að framan hafa verið rakin, jafnréttislögum nr. 10/2008 og dómaframkvæmd um túlkun þeirra laga.

Ríkislögreglustjórinn

11. mars 2014