4 Mars 2013 12:00
Sjö ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur um helgina í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Fimm þeirra óku of hratt á Grindavíkurvegi. Sá sem hraðast ók mældist á 123 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Á Reykjanesbraut, þar sem sami hámarkshraði gildir, mældist einn ökumaður á 123 kílómetra hraða og annar ók á 120.
Ölvaður ökumaður velti bíl
Bílvelta varð við Kúagerði á Reykjanesbraut í fyrrinótt og lét ökumaður sig hverfa af vettvangi. Umráðamaður ökutækisins tjáði lögreglunni á Suðurnesjum hver hefði ekið bifreiðinvni og væri sá nú kominn heim. Þegar lögegla hafði tal af ökumanninnum lagði af honum áfengisþef. Hann var því færður á lögreglustöð, þar sem öndunarsýni staðfesti að hann hefði neytt áfengis.
Tveir ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur. Annar var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða, en ekki þurfti að svipta hinn, því það hafði áður verið gert með dómi.
Ökumaður kastaði frá sér fíkniefnum
Rúmlega tvítugur ökumaður kastaði frá sér poka með kannabisefnum í, þegar lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af honum um helgina. Maðurinn hafði áður verið sviptur ökurettindum.
Annar ökumaður, sem grunaður var um vímuakstur, reyndist vera undir áhrifum áfengis og sýnatökur staðfestu að hann hafði einnig neytt amfetamíns og kannabis. Bifreið hans var að auki ótryggð svo lögregla tók skráningarmerki af henni.