26 Mars 2008 12:00
Sérsveit ríkislögreglustjóra sem staðsett er á Norðurlandi, Suðurnesjum og á Suð-Vesturlandi hefur haft í nógu að snúast að undanförnu við sérsveitarverkefni auk almennra löggæsluverkefna. Síðastliðinn föstudag stóð sérsveitin að handtöku grunaðra manna vegna ráns á bensínstöð í Breiðholti, þar sem þeir ógnuðu starfsfólki með sprautunálum. Á laugardag stöðvuðu sérsveitarmenn eftirlýsta bifreið á Reykjanesbraut vegna líkamsárása í Breiðholti og handtóku fjóra karlmenn sem veittu mótspyrnu við handtökur. Aðfararnótt Páskadags handtóku sérsveitarmenn karlmann sem staðinn var að því að brjótast inn í bifreiðar. Maðurinn var með 19 sm langan hníf upp í erminni og veitti mótspyrnu við handtöku. Um Páskahelgina tók sérsveitin síðan þátt í leit að grunuðum einstaklingum vegna líkamsárásanna í Breiðholti og aðstoðaði lögreglustjórann á Suðurnesjum við handtöku eins þeirra í gær.
Nýliðanámskeið fyrir verðandi sérsveitarmenn verður haldið í september næstkomandi og að því loknu má búast við að fjölgað verði í sveitinni úr 42 sérsveitarmönnum í 48.
Fjölgun sérsveitarmanna á undanförnum árum og framangreind staðsetning þeirra á landinu hefur án efa aukið öryggi borgaranna og lögreglumanna.