15 Maí 2009 12:00
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Ellisif Tinna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar, hafa undirritað samning um afnot ríkislögreglustjóra að mannvirkjum á mannvirkjaskrá Atlantshafsbandalagsins. Ríkislögreglustjóri fær til afnota fimm byggingar og afmarkað svæði á Miðnesheiði sem nýtast mun lögreglunni í landinu og Lögregluskólanum.
Samningurinn skapar lögreglunni ný tækifæri til margs konar æfinga og aukins samstarfs við Landhelgisgæslu Íslands, sem hefur einnig aðstöðu á Miðnesheiði, samkvæmt fyrirliggjandi samstarfssamningi ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar um löggæslu, björgun og almannavarnir.
Sérsveit ríkislögreglustjóra mun flytja æfingaaðstöðu sína frá Hvalfirði og á hið umsamda svæði.