12 September 2005 12:00
Samningur um bílamiðstöð lögreglu
Þann 1. nóvember næstkomandi flytur bílamiðstöð ríkislögreglustjórans úr Borgartúni 4 í nýtt húsnæði við Skógarhlíð. Í samræmi við samning ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans í Reykjavík frá 7. september síðastliðnum verða starfsmenn lögreglustjórans í Reykjavík, sem störfuðu í bílamiðstöð, starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra. Í samningnum er einnig kveðið á um sérstaka þjónustu bílamiðstöðvarinnar við lögreglustjórann í Reykjavík sem miðar að því að hann hljóti áfram sömu þjónustu og embættið hefur haft af störfum þjónustustjóra lögreglunnar í Reykjavík.
Ríkislögreglustjórinn starfrækir bílamiðstöð lögreglunnar og ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun ökutækja lögreglunnar samkvæmt rekstrarfyrirkomulagi sem tekið var upp í ársbyrjun 1999 og lögreglan í Reykjavík gekk inn í 1. janúar 2000. Bílamiðstöð ríkislögreglustjórans er stoðdeild og þjónustumiðstöð fyrir öll lögregluembætti landsins. Markmið hennar er aukin hagræðing í rekstri, örari endurnýjun ökutækja og búnaðar og almenn og betri þjónusta við embættin.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að bílamiðstöðin endurnýi ökutæki og búnað fyrir um 95 milljónir króna. Keypt verða 26 ökutæki auk þess sem endurnýjuð verða um 15 radartæki með nýjum búnaði af fullkomnustu gerð og myndbands upptökutæki. Þá hefur verið lögð sérstök áhersla á endurnýjun stærri lögreglubifreiða og hafa verið keypt sex ökutæki af gerðinni Ford Econoline 350 og fara þrjú þeirra til lögreglustjórans í Reykjavík.
Ný bifreið fyrir slysarannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík.
Bifreiðin er mjög vel útbúin tækjabúnaði og góð aðstaða er til skýrslutöku.
Bifreiðin er mjög vel útbúin tækjabúnaði og góð aðstaða er til skýrslutöku.