3 Apríl 2006 12:00
Þann 30. mars sl. var undirritað samkomulag milli Landmælinga Íslands og Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð um aukna notkun á landsupplýsingum við björgunarstörf. Fram að þessu hafa venjuleg landakort verið notuð, en með samkomulaginu er stefnt að því að auka notkun á stafrænum kortum, gervitunglamyndum og öðrum landsupplýsingum sem Landmælingar Íslands hafa yfir að ráða. Þetta mun nýtast þeim sem kallaðir eru út vegna slysa, eldsvoða, löggæslu, leitar, björgunar og náttúruhamfara hvort sem er á landi, sjó eða í lofti. Um er að ræða þróunarverkefni í þágu almannaöryggis sem stendur yfir í sex mánuði. Markmiðið er að bæta og auka upplýsingar til viðbragðsaðila jafnframt því að viðbragðsaðilar skuldbinda sig til að miðla til Landmælinga Íslands athugasemdum sem berast vegna gagnanna svo sem um örnefni, vegi eða mannvirki.
Samkomulagið undirrituðu Magnús Guðmundsson frá Landmælinum Íslands, Þórhallur Ólafsson frá Neyðarlínunni, Jón Gunnarsson frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Georg Lárusson frá Landhelgisgæslu Íslands.
Nánari upplýsingar gefa Magnús Guðmundsson, s. 430 9000 og Þórhallur Ólafsson, s. 570 2000.
Myndirnar að neðan voru teknar þegar samkomulagið var undirritað.