9 Febrúar 2016 14:20

 

Ökumaður, sem var á leiðinni í gegnum umdæmið,  var sl. föstudag, tekinn grunaður um akstur undir áhrifum kókaíns,  annar ökumaður var tekinn  á Akranesi grunaður um að aka undir áhrifum kannabis.  Þá var atvinnubílstjóri tekinn í Borgarnesi, grunaður um ölvunarakstur.

 

Alls urðu 7 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl viku.

Ökumaðurinn sem var að taka framúr traktor í Reykholtsdal,  missti í framhaldinu stjórn á jeppabifreið sinni sem snerist í hálkunni, valt og hafnaði ofaní vegskurði.

Allir í bílnum, tvö ungabörn auk ökumanns, voru í öryggisbeltum og sluppu án teljandi meiðsla.  Var fólkið til öryggis flutt á heilsugæslustöðina í Borgarnesi til skoðunar.

Bifreiðin var óökufær og var fjarlægð af kranabíl.

 

Fullorðinn ökumaður missti stjórn á jeppanum sínum á Vesturlandsvegi skammt norðan við Fiskilæk sl. föstudag.  Fór jeppinn útaf veginum en hélst á hjólunum og fór síðan upp á veginn og þá í veg fyrir fólksbíl sem kom úr gagnstæðri átt.  Öryggisbelti og líknarbelgir björguðu fólkinu frá því að slasast mikið í þessum harða árekstri. Voru ökumenn og farþegar fluttir á sjúkrahúsið á Akranesi til skoðunar en talið var að um minniháttar meiðsl væri að ræða.  Bílarnir voru báðir mikið skemmdir og óökufærir og voru þeir fluttir á brott með kranabíl.

 

Þriggja bíla árekstur varð á Snæfellsnesvegi við Flesjustaði en sá fjórði, sem segja má að hafi verið orsakavaldurinn, slapp.  Tildrögin óhappsins voru þau að bíll erlendra ferðamanna bilaði og var honum lagt út í vegkantinn skammt frá blindhæð.  Ökumaður bíls sem kom þar á eftir rétt náði að stöðva en þá  lenti bíll sem var á eftir honum á þeim kyrrstæða og kastaðist hann síðan í veg fyrir bíl sem kom úr gagnstæðri átt.    Allir bílarnir voru í ökufæru ástandi og ökumenn og farþegar sluppu án teljandi meiðsla að því talið var.  En fólkinu var samt ráðlagt að fara í læknisskoðun.

 

Fimm, franskir og sænskir, ferðamenn veltu jeppanum sínum á Snæfellsnesvegi skammt frá Vegamótum sl. sunnudag.  Fólkið var í öryggisbeltum og slapp með skrekkinn en bíllinn reyndist óökufær og var fjarlægður af kranabíl.  Mikil hálka var á vettvangi.

 

Lögreglan fékk einkaaðila til að aðstoða erlenda ferðamenn sem höfðu fest bílana sína í snjó víðs vegar um umdæmið í sl. viku, svipaðan fjölda og undanfarnar vikur.