3 Maí 2011 12:00
Lögreglan á Selfossi rannsakar hvarf á Rottweilertík sem var í haldi lögreglunnar eftir að hafa bitið konu í Hveragerði 4. mars síðastliðinn. Tíkin var í haldi á viðurkenndu hundahóteli á Arnarstöðum í Flóa. Þar átti tíkin að vera þar fyir lægi niðurstað stjórnsýslukæru sem eigandi lagði fram. Af verksummerkjum að dæma er sterkur grunur um að tíkin hafi verið numin á brott.
Eftir að málið kom upp var tíkin tekin í vörslu lögreglu. Vegna ákvæða í samþykkt um hundahald í Hveragerðisbæ var hundeigandanum gefinn kostur á leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun yrði tekin. Nokkrum dögum síðar lá fyrir álit héraðsdýralæknis um að að rétt væri að afllífa tíkina. Að þeirri niðurstöðu fenginni ákvað lögreglustjóri að tíkin skyldi aflífuð.
Eigandi tíkarinnar kærði þá ákvörðun lögreglustjóra til Innanríkisráðuneytisins þann 25. mars. Ráðuneytið frestaði réttaráhrifum ákvörðunar lögreglustjóra og sendi kæruna samdægurs til úrlausnar Úrskurðanefndar hollustuhátta og mengunarvarna. Úrlausnar nefndarinnar hefur verið beðið og tíkin verið í haldi þar til hún hvarf í nótt.
Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem orðið hafa varir við mannaferðir við Arnarstaði, austan við Selfoss, í nótt eða geta veitt upplýsingar um hvarf tíkarinnar að hafa samband í síma lögreglunnar 480 1010