21 Desember 2006 12:00
Að undanförnu hefur nokkuð borið á því að netnotendur fái send atvinnutilboð á netföng sín sem embætti ríkislögreglustjóra telur ástæðu til að vara sérstaklega við. Í flestum tilfellum er um sölu- og markaðsstörf að ræða og þykjast fyrirtækin sem kynnt eru til sögunnar vera leiðandi á því sviði á internetinu. Í flestum tilfellum er um hreina svikastarfsemi að ræða.
Það eitt vakir fyrir þeim sem að þessu standa að fá aðgang að bankareikningum og nota þá til þess að millifæra peninga sem að jafnaði eru afrakstur afbrota. Með því að taka þessum tilboðum og veita umbeðnar upplýsingar getur fólk bakað sér refsiábyrgð. Ríkislögreglustjóri hefur áður varað við slíkum atvinnutilboðum en ítrekar það nú að gefnu tilefni.
Hér eru dæmi um spurningar sem sendar voru á netfang nú á dögunum þegar eiganda þess hér á landi var boðin atvinna gegn því að hann gæfi upplýsingar sem birtar eru á ensku: 1. Your full name: 2. Your country: 3. Your full address. 4. Your mobile contact phone: 5. Your fixed/home contact phone: 6. Your work contact phone: 7. Your contact email: 8. Are you ready to start working with our company? (must be “Yes/No“) 9. Are you ready to accept money transfers to your bank account (must be “Yes/No“)
Sérstök athygli er vakin á 9. spurningunni þar sem leitað er samþykkis við því að veita aðgang að bankareikningi til að millifæra peninga inn á hann.
Frekari upplýsingar veitir Grímur Grímsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, í síma 570 2500.