31 Júlí 2003 12:00
Kennslanefnd ríkislögreglustjórans hefur, samkvæmt beiðni lögreglustjórans í Reykjavík, lokið athugun á þremur mannabeinum sem fundust undir þakklæðningu á íbúðarhúsi við Vitastíg í Reykjavík þegar unnið var að endurbótum á húsinu í maí á þessu ári. Nefndin byggir niðurstöður sínar á skýrslu Hildar Gestsdóttur, beinafræðings, sem rannsakaði beinin á vegum Þjóðminjasafns Íslands.
Beinin þrjú eru hægri sköflungur, vinstri lærleggur og hægri upparmleggur af tveimur, jafnvel þremur fullvöxnum einstaklingum sem ætla má að grafnir hafi verið á sama stað. Mælingar á armlegg þykja benda til þess að beinið sé af konu sem var um 150 sm á hæð en lærleggurinn af konu sem hefur verið um 162 sm á hæð. Mælingar á sköflungi benda til þess að líkamshæð hafi verið 155 til 160 sm, en hér verður kyn ekki greint. Mismunur á lengd armleggs og lærleggs þykir styðja þá ályktun að þau geti verið sitt úr hvorum einstaklingnum. Á öllum beinunum eru merki um bruna- eða sótskemmdir, eftir að þau komu úr jörðu, en án þess að séð verði að reynt hafi verið að kveikja í þeim. Hefur vökva verið skvett á beinin til að slökkva eld.
Í umfjöllun fjölmiðla á sínum tíma komu fram þær tilgátur að beinin gætu verið úr kirkjugarðinum í Haffjarðarey í Haffirði. Af þessu tilefni voru þau borin saman við nokkur bein sem grafin voru upp í kirkjugarðinum árið 1947, af Jóni Steffensen og Kristjáni Eldjárn, og varðveitt eru í Þjóðminjasafninu. Niðurstöður af þessum samanburði benda til þess að mjög ólíklegt sé að beinin sem fundust á Vitastíg komi úr kirkjugarðinum í Haffjarðarey, en þar voru grafir teknar í sand. Á samanburðarbeinum eru ekki för eftir rætur eða leifar róta eins og sjást á beinunum þremur.
Ekki er upplýst með vissu um aldur beinanna sem fundust á Vitastíg en líklegt þykir að þau séu úr fornum kirkjugarði og teljist til fornminja. Samkvæmt þjóðminjalögum eru forngripir lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Allir munir sem falla undir ákvæði 18. greinar laganna, þar á meðal leifar af líkömum manna, skulu varðveittir í Þjóðminjasafni Íslands eða í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni.