11 Mars 2004 12:00
Nýlega kom út skýrsla þar sem kynntar eru niðurstöður úr rannsókn á aksturshegðun meðal nær 2.000 nemenda í framhaldsskólum og Háskóla Íslands. Rannsóknin, sem var framkvæmd haustið 2003, er unnin af Hauki Frey Gylfasyni, Rannveigu Þórisdóttur og Marius Peersen í samstarfi við Rannum og embætti ríkislögreglustjórans.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að rúmlega 25% þátttakenda höfðu ekið undir áhrifum áfengis einu sinni eða oftar en einungis 4% sögðust hafa verið tekin af lögreglu fyrir ölvunarakstur. Hafa ber í huga að hér er um huglægt mat þátttakenda á ölvunarástandi að ræða en á móti kemur að þátttakendur töldu almennt að einn lítill bjór eða minna myndi hvorki mælast við öndunarpróf né skerða ökuhæfni og gefur þetta magn vísbendingar um það við hvað þátttakendur miða er þeir tala um ölvunarakstur.
Þá voru karlar líklegri en konur til að segjast hafa ekið undir áhrifum áfengis og eykst tíðnin með aldri hjá báðum kynjum. Athygli vekur að næstum helmingur karla á aldrinum 20 til 30 ára hefur ekið drukkinn og þriðjungur kvenna. Mun færri hafa verið teknir af lögreglu fyrir ölvunarakstur þó fleiri karlar en konur. Meðal nemenda 18 til 30 ára segjast rúmlega 60% fleiri karlar en konur hafa ekið drukknir, á meðan rúmlega 200% fleiri karlar en konur segjast hafa verið teknir af lögreglu fyrir ölvunarakstur.
Karlar töldu sig geta drukkið meira en konur áður en það kæmi fram á öndunarprófi og einnig töldu þeir sig geta drukkið meira áður en áfengið hefði áhrif á ökuhæfni þeirra. Að sama skapi eykst það magn sem þátttakendur telja sig mega drekka án þess að það komi fram á mælum lögreglu eða hafi áhrif á aksturshæfni með aldrinum.
Skýrsluna má nálgast hér >>