2 Apríl 2013 12:00
Tæplega tvítug kona var stöðvuð þar sem hún ók um götur Keflavíkur, þar sem lögeglan á Suðurnesjum taldi ástæðu til að kanna ástand og réttindi hennar. Hún viðurkenndi að hafa aldrei öðlast ökuréttindi. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu að auki að hún var ölvuð við aksturinn. Loks framvísaði hún fíkniefnum sem hún var með í jakkavasa sínum eftir að á stöðina var komið.
Ölvun um páskana
Nokkur tilvik komu upp þar sem lögreglan á Suðurnesjum þufti að hafa afskipti af fólki vegna ölvunar um páskana. Í gærkvöld var tilkynnt um ölvaða konu sem hafði dottið á hnakkann heima hjá sér og gat ekki staðið upp. Hún var með stóra kúlu á hnakkanum og var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í gærkvöld var lögregla einnig kölluð út vegna manns sem var mjög ölvaður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann öskraði og sló til læknis sem var að reyna að ræða við hann. Maðurinn var vistaður í fangageymslu meðan hann var að ná áttum.
Þá var annar maður ósáttur við að hafa verið vísað úr samkvæmi og sló hann til manna fyrir utan samkvæmisstaðinn að lögreglumönnum ásjáandi. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð. Loks var tilkynnt um ölvaða stúlku sem lægi ósjálfbjarga í götunni. Hún var aðstoðuð við að komast heim til sín.