28 Nóvember 2016 12:03
Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina farþega sem var að koma með flugi til landsins vegna gruns um að hann væri undir áhrifum áfengis þar sem hann var að aka af stað frá langtíma bílastæðinu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann viðurkenndi að hafa fundið til ölvunaráhrifa við aksturinn og var færður á lögreglustöð þar sem sýnatökur fóru fram. Fyrr í vikunni hafði annar ökumaður verið handtekinn á Ásbrú, einnig grunaður um ölvun við akstur.
Þá voru höfð afskipti af ökumönnum vegna gruns um fíkniefnaakstur. Sl. föstudag voru tveir ökumenn handteknir i umdæminu vegna gruns um slíkt athæfi. Loks ók ökumaður bifreið sinni aftan á tengivagn flutningabifreiðar á Helguvíkurvegi. Maðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum og var handtekinn og fluttur á lögreglustöð vegna gruns um fíkniefnaakstur.