15 Desember 2020 14:09
Embætti ríkislögreglustjóra og Isavia hafa gert samning við franska tæknifyrirtækið IDEMIA um kaup á nýju alhliða landamærakerfi. Samningurinn tryggir uppsetningu á sjálfvirkum landamærabúnaði á Keflavíkurflugvelli en auk þess er gert ráð fyrir endurnýjun búnaðar á landamærastöðvum á landinu öllu. Með hinu nýja kerfi mun Ísland, sem aðili að Schengen-samkomulaginu, uppfylla reglur um komu- og brottfararkerfi (e. Entry/Exit System (EES)) á landamærum aðildarríkja Schengen-samstarfsins.
Ríkislögreglustjóri, lögregluumdæmin á Suðurnesjum og Höfuðborgarsvæðinu hafa síðan snemma árs 2019 unnið að unnið að kaupum á hinum nýja landamærabúnaði. Sú ákvörðun að velja tæknilausnir IDEMIA til verkefnisins eru niðurstaðan á löngu ferli. Miklar vonir eru bundnar við gott og árangursríkt samstarf við IDEMIA.
„Isavia fagnar því að þetta mikilvæga skref hafi verið stigið í samstarfi við íslensk lögregluyfirvöld og IDEMIA,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.
„Þessi nýja tækni á eftir að styðja við afköst á landamærunum, en það sem skiptir ekki síður máli að þá á hún eftir að bæta upplifun farþega sem yfir landamærin koma og sýna enn og aftur hvað Keflavíkurflugvöllur er mikilvæg og þægileg tengistöð milli Evrópu og Norður-Ameríku. Leiðin yfir landamærin verður öruggari með sjálfvirkri tækni IDEMIA og eykur vaxtarmöguleika tengistöðvarinnar sem Keflavíkurflugvöllur er.“
Hið nýja komu- og brottfararkerfi mun hafa umtalsverðar breytingar í för með sér á framkvæmd landamæraeftirlits á ytri landamærum Schengen-samstarfsins gagnvart þriðja ríkis borgurum, m.a. þar sem gerðar eru kröfur um söfnun lífkennaupplýsinga (andlitsmyndir og fingraför).
„Þessi áfangi er mikilvægur fyrir lögregluna í landinu“, segir Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn og sviðsstjóri á landamærasviði ríkislögreglustjóra.
Kerfið verður notað á Keflavíkurflugvelli en einnig á öðrum landamærastöðvum á Íslandi. Áformað er að kerfið verði komið í fulla notkun fyrri hluta árs 2022, þegar nýjar reglur koma til framkvæmda og er gert ráð fyrir að það geti annað um 2.500 farþegum á klukkutíma. Kostnaður vegna þessa verkefnis er að stórum hluta fjármagnaður með styrkveitingum úr Innri-öryggisjóði Evrópusambandsins.