19 Desember 2003 12:00
Að tilstuðlan dómsmálaráðuneytisins hefur ríkislögreglustjórinn keypt fíkniefna- og sprengileitartæki frá fyrirtækinu GE Ion Track í Englandi. Af því tilefni sóttu lögreglumenn og fangaverðir frá Fangelsinu á Litla-Hrauni námskeið í notkun og meðferð tækisins sem fulltrúi GE Ion Track og tæknimaður Austurbakka sáu um og fram fór í Lögregluskóla ríkisins.
Tækið er í umsjón ríkislögreglustjórans. Það er fyrst og fremst ætlað til nota í fangelsum, en einnig til fíkniefnaleitar á flugvöllum, utan Keflavíkurflugvallar og í höfnum landsins. Jafnhliða leit að fíkniefnum leitar tækið að sprengiefnum og þegar svo ber undir og ástæða er til verður tækið einni notað við sprengileit.
Allir lögreglustjórar auk Fangelsismálastofnunar geta fengið afnot að tækinu.
Myndin var tekin í Lögregluskóla ríkisins 16. desember 2003 þegar verið var að kenna notkun og meðferð tækisins. Á henni eru, talið frá vinstri: Sveinn Bjarki Sigurðsson lögreglufulltrúi hjá embætti ríkislögreglustjóra, Örlygur Steinn Sigurjónsson blaðamaður á Morgunblaðinu og Eric Harlows sérfræðingur frá framleiðandanum General Electrics. Ljósmynd: Júlíus Sigurjónsson.